Komið að uppgjöri?

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst báðir þessir leiðtogar okkar stórkostlegir menn og hafa sýnt það og sannað og mér finnst bara mikill styrkur eins flokks að eiga slíka menn,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í samtali við mbl.is, um þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, og Sigurð Inga Jóhannsson, varaformann og forsætisráðherra. 

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fór fram í gær en Sigrún segir það ekki hafa verið til umræðu þar hjá Sigurði Inga hvort hann styddi Sigmund Davíð sem formann flokksins. Segir hún einungis hafa komið fram að hann ætlaði sér ekki að bjóða sig fram í stjórn flokksins ef núverandi stjórn sæti áfram.

Spurð hvort hún telji að það gefi til kynna að Sigurður Ingi styðji ekki Sigmund segist Sigrún ekki vilja hafa uppi neinar getgátur um það en sjálf styðji hún þá báða til áframhaldandi forystu. „Já, ég get ekki sagt annað en að ég met þá afar mikils og vildi mikið til vinna að maður nyti krafta þeirra beggja,“ segir Sigrún.

Kannski að koma að uppgjöri

„En mér sýnist á öllu að það sé kannski að koma að einhverju uppgjöri, ég átta mig ekki alveg á því,“ segir Sigrún. Spurð hvað hún eigi við með því segir Sigrún að miðað við það sem fram fór á fundinum sé spurning hvort það boði að til þess komi að kjósa þurfi á milli þeirra.

Heldurðu að það komi til þess? „Ég vil helst ekki vera að geta of mikið í líkur, ég er ekki þannig spámannlega vaxin að ég sé að gera það, en ég vona bara innilega að Sigurður Ingi sé ekki með þessum orðum að segja að hann ætli að hætta,“ útskýrir Sigrún.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þá tekur hún undir orð Sigurðar Inga um að fundurinn hafi verið hreinskiptinn. „Heldur betur, menn skiptust þarna á skoðunum. Framsóknarmenn, við erum félagshyggjuflokkur og við höfum í 100 ár lifað storma og lægðir og staðið af okkur og þannig erum við umfram kannski marga aðra og þess vegna erum við bara hreinskiptin,“ segir Sigrún.

Spurð hvort komið hafi til umræðu hvort gott væri fyrir flokkinn að Sigmundur væri áfram í forystu segir Sigrún að „vitaskuld“ hafi svo ekki verið, heldur hafi menn verið að ræða málin almennt.

Framsóknarmenn stoltir af Sigmundi

„Eitt er algjörlega ljóst, að framsóknarmenn líta til Sigmundar Davíðs með miklu stolti og væntumþykju fyrir þau stórkostlegu verk sem við höfum tekist á hendur og tekist að koma í gegn,“ segir Sigrún.

Þá segir hún ljóst að eftir fundinn í gær verði kosið um forystuna, hvernig svo sem kunni að fara, enda hafi borist framboð til formanns gegn Sigmundi, en Sveinbjörn Eyjólfsson hefur lýst því yfir að hann muni fara fram á móti Sigmundi Davíð á komandi flokksþingi.

Frétt mbl.is: Býður sig fram gegn Sigmundi Davíð

Hlutur kvenna áhyggjuefni

Sigrún hverfur af braut á Alþingi í haust eftir tæp 50 ár í pólitík en hún segist hafa miklar áhyggjur varðandi jafna stöðu kynjanna í stjórnmálum, ekki síður í ljósi niðurstaðna í þeim prófkjörum er fram fóru um helgina.

Frétt mbl.is: Vill að niðurstöðum verði breytt

„Ég er búin að vera í pólitík í tæp 50 ár, maður var svo oft fyrstur einhvers staðar. En að maður sjái svo eftir tæp 50 ár, þegar maður er að ljúka sinni göngu, að framgangur kvenna, honum er bara sparkað út í ystu myrkur,“ segir Sigrún en það eigi við um í öllum flokkum, Framsókn jafnt sem öðrum flokkum.

„Sársauki minn, sem hef verið í þessu og viljað berjast fyrir því að konur geti fengið að njóta sín til jafns við karla, að það skuli vera svona afturför, það er bara sorgardagur,“ útskýrir Sigrún, sem segir ljóst að aldrei megi sofna á verðinum.

Mikil vonbrigði

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við RÚV að hlutur kvenna í prófkjörum flokksins í gær sé mikil vonbrigði. Mikil eftirsjá sé að Ragnheiði Elínu Árnadóttur, sem ætlar að hætta í stjórnmálum, en nú sé í höndum kjördæmisráða að ákveða hvort framboðslistum verði breytt.

Segir hún að konum hafi þó gengið vel í Reykjavík og Norðvesturkjördæmi en þegar litið sé til prófkjaranna í gær ætli hún ekki að draga dul á það að niðurstaðan hafi verið vonbrigði.

Spurð hvort hún telji að breyta eigi listunum segir Ólöf að sú spurning sé vandmeðfarin en telur að þetta þurfi að skoða. „Ég held að við þurfum að skoða þetta og læra af þessu til framtíðar eins og alltaf, þetta er ekkert nýtt, en ég hins vegar legg áherslu á það að ef við lítum til landsins í heild er árangur sjálfstæðiskvenna víða mjög góður,“ segir Ólöf við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert