Staðan í jafnrétti kynjanna er verri í Sjálfstæðisflokknum en öðrum flokkum, að mati Helgu Daggar Björgvinsdóttur, formanns Landssambands sjálfstæðiskvenna. Hún segir hugsanlegt að fram komi nýtt kvennaframboð á hægri vængnum. Þetta kom fram í máli hennar í morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.
Helga Dögg segir að ástandið í kynjajafnrétti sé verra í Sjálfstæðisflokknum en öðrum flokkum. „Ég hef aldrei verið feimin við að tala um það að mér finnst staðan í Sjálfstæðisflokknum vera verri en annars staðar þó að vissulega hafi konur komið illa út úr prófkjörum annars staðar líka. Ég veit ekki hvort það séu sterkari karlagildi í Sjálfstæðisflokknum að einhverju leyti en konur hafa átt mjög erfitt uppdráttar. Það hefur ekki mátt tala um jafnréttismál út frá kynjasjónarmiði, og það er enn þá þannig í ákveðnum kreðsum að maður er bara þaggaður niður.“
Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spyr á Facebook hvort kvennaframboð sé málið? og Friðjón R. Friðjónsson, sem situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, skrifar á Facebook í gærmorgun að hann muni ekki samþykja jafneinsleita lista og niðurstöður prófkjöranna um helgina skiluðu.
„Samkvæmt 54. gr. skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins þurfa framboðslistar staðfestingu miðstjórnar. Ég mun ekki styðja einsleita lista eins og niðurstöður prófkjöranna um helgina skiluðu. Það er það minnsta sem ég get gert í stöðunni,“ skrifar Friðjón.