„Tveir hjartakóngar í spilum Framsóknarflokksins“

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það eru tveir hjartakóngar í spilum Framsóknarflokksins,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins. Guðni telur að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigi að víkja úr embætti formanns flokksins og Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins, taki við. 

„Framsóknarflokkurinn vill geta lagt verk sín í dóm kjósenda. Nú finn ég að þó að mönnum þyki vænt um Sigmund Davíð óttast menn að þessi vondu mál sem hann hefur orðið fyrir muni yfirskyggja alla kosningabaráttu og skaða árangur flokksins í kosningunum,“ segir Guðni Ágústsson, í viðtali á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Guðni segir að enginn einn maður sé stærri en flokkurinn. Hann segir mikilvægt að fá frið um formannsembætti flokksins og að í starfið þurfi að veljast maður sem geti talað við alla án þess að persónuleg einkamál þvælist fyrir góðum málum ríkisstjórnarinnar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ásamt Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ásamt Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra og varaformanni Framsóknar. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

„Sigurður Ingi hefur staðið sig mjög vel. Hann tók við forsætisráðherrastarfinu við mjög erfiðar aðstæður í byrjun apríl en hefur staðið sig frábærlega og haldið vel um málin síðan. Hann sættir öfl, hann friðar þing og róar það niður, hann hefur verið auðmjúkur og getað talað við alla. Þannig að hann gerir þetta eins og best verður gert,“ segir Guðni.

„Sigmundur Davíð er afreksmaður í pólitík. Með skuldalækkun, Icesave og að endurheimta fé fallinna banka hefur hann sýnt það. En nú eiga Framsóknarmenn ekki að deila um þessa menn. Þeir verða að meta þetta eins og í fótbolta. Á Eiður Smári að vera sá sem keyrir liðið áfram og skorar mörkin eða er annar líklegur til þess að gera það betur í þetta sinn,“ bætir Guðni við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert