Maðurinn sem handtekinn var í Vestmannaeyjum á laugardag er grunaður um að hafa brotið kynferðislega á konunni sem þaðan var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur um morguninn. Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, staðfestir að grunur lögreglu sé um kynferðisbrot.
Eins og mbl.is greindi frá í gær var gæsluvarðhalds krafist yfir manninum vegna gruns um að hann hefði brotið gegn konu á fimmtugsaldri í Vestmannaeyjum aðfaranótt laugardags. Héraðsdómur Suðurlands hafnaði kröfunni og var úrskurður hans kærður til Hæstaréttar. Jóhannes segir lögreglu búast við úrskurði Hæstaréttar í dag.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar fannst konan meðvitundarlaus í húsgarði skammt frá öldurhúsi í bænum. Þá var hún sögð hafa verið nakin og með mikla áverka, meðal annars á höfði. Töldu heimildarmenn Stundarinnar að konan hefði höfuðkúpubrotnað.
Sjá frétt mbl.is: Sögð hafa fundist nakin í húsgarði