Kári heitir hann, var það ekki?

Sigmundur í sjónvarpssal í kvöld.
Sigmundur í sjónvarpssal í kvöld. Skjáskot/RÚV

„Það heyrast háværar raddir úr íslensku samfélagi sem krefjast þess að við hlúum miklu betur að íslensku heilbrigðiskerfi. Ef þið endið í ríkisstjórn að loknum kosningum, hvernig hyggist þið móta stefnu og hrinda henni í framkvæmd, um heilbrigðismál á Íslandi, og hvernig ætlið þið að hunskast til að fjármagna hana að því marki sem samfélagið vill?“

Svo hljómaði spurning Kára Stefánssonar í sjónvarpssal Ríkissjónvarpsins, sem hann beindi að þeim tólf frambjóðendum sem þar voru saman komnir til kappræðna í kvöld.

„Og síðan, þegar þið svarið þessu, hvernig ætlist þið til að fólk trúi því að þið munið standa við það sem þið segið að kosningum loknum?“

Ekki eigi að byggja upp á umferðareyju

Óttarr Proppé sagði Íslendingum ekki hafa auðnast að mynda stefnu til langs tíma í heilbrigðismálum. Heilbrigðiskerfið hefði grotnað niður og mikilvægt væri að hefja grundvallarbreytingar á því.

„Til þess þarf að fá alla að borðinu, þverpólitíska sátt með bæði fagmönnum og almenningi.“

Sigmundur Davíð sagði að langt væri síðan Framsóknarflokkurinn hefði sett stefnu í þessum málum. Hann sagðist ekki hlynntur áframhaldandi samþjöppun heilbrigðisþjónustu, efla þyrfti hana á landsbyggðinni og að byggja þyrfti annan stóran spítala á höfuðborgarsvæðinu.

Þá sagðist hann ekki sammála spyrjandanum, „Kári heitir hann var það ekki?“ bætti hann við, um að áfram eigi að byggja upp Landspítalann „á umferðareyju.“

Sjá frétt mbl.is: Getur ekki beðist afsökunar á árásum fjölmiðla

„Hvernig ætlið þið að hunskast til að fjármagna hana að …
„Hvernig ætlið þið að hunskast til að fjármagna hana að því marki sem samfélagið vill?“ spurði Kári. Skjáskot/RÚV

Efnahagur ráði aldrei aðgenginu

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokks sagði að markmið sitt væri að efnahagur fólks ætti aldrei að ráða aðgengi að heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Ríkið hefði fleiri hundruð milljarða bundna í fjármálakerfinu sem gætu farið í uppbyggingu þjónustunnar.

Oddný Harðardóttir sagði endurbætur heilbrigðiskerfisins vera klárlega stóra mál næsta kjörtímabilsins. Hún sagðist vilja Landspítalann áfram við Hringbraut. Fyrirsjáanlegur skortur væri á hjúkrunarfræðingum á næstu árum. 

„Með réttri forgangsröðun er þetta allt saman mögulegt, og almenningur í landinu mun sjá til þess að við stöndum við þetta.“

Vilja taka markvisst á holum kerfisins

Kári Stefánsson tók þá aftur til máls og sagði vanta miklar fjárhæðir til reksturs heilbrigðiskerfisins næstu ár. Spurði hann Bjarna af hverju ekki væri sett meira fé í það á sama tíma og ríkisstjórnin væri að skila af sér öflugum ríkissjóði.

Bjarni sagði að örugglega væri hægt að ná betri árangri með tíu milljörðum til viðbótar í rekstur Landspítalans, líkt og Kári hefði bent á. Hann sagði flokk sinn vilja taka markvisst á þeim holum sem væru í kerfinu. Kostnaðarþátttaka sjúklinga ætti ekki að vera neins konar aðgangshindrun.

Tólf frambjóðendur í sjónvarpssal

Oddvitar þeirra tólf flokka sem boðað hafa framboð til Alþingiskosninga mættust í fyrsta skipti í sjónvarpskappræðum Ríkissjónvarpsins í kvöld. Stiklað var á stóru og oft farið hratt yfir sögu, enda tíminn knappur í tólf manna kappræðum.

Þeir sem mættu fyrir hönd flokka sem nú eru á þingi voru: Katrín Jakobsdóttir fyrir VG, Bjarni Benediktsson fyrir Sjálfstæðisflokk, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrir Framsóknarflokk, Oddný Harðardóttir fyrir Samfylkinguna, Óttarr Proppé fyrir Bjarta framtíð og Einar Brynjólfsson fyrir Pírata.

Auk þeirra voru í sjónvarpssal Benedikt Jóhannesson fyrir Viðreisn, Þorvaldur Þorvaldsson fyrir Alþýðufylkingu, Helga Þórðardóttir fyrir Dögun, Inga Sæland fyrir Flokk fólksins, Júlíus Valdimarsson fyrir Húmanista, og Helgi Helgason fyrir Þjóðfylkinguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert