Það væri hollt fyrir Framsóknarflokkinn ef kosið yrði um forystu flokksins. Þetta sagði Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við fréttamenn eftir fund þingflokksins í dag. Sagði Willum að hann gæti hugsað sér að kjósa Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra til forystu í flokknum, en um leið tók hann fram að Sigmundur hefði staðið sig vel sem leiðtogi flokksins.
Willum sagði að á fundinum hefði verið rætt um stöðuna í flokknum þegar stutt væri eftir af þingi. Sagði hann að ekki hefði verið rætt um skipan forystu flokksins. Sagði Willum að eining væri um stöðu formanns flokksins og að þingflokkurinn væri heill að baki honum.
Willum var spurður út í ummæli Sigmundar í kosningaþætti RÚV í gær þar sem hann sagðist ekki hafa átt í aflandsfélaginu Wintris. „Ef ég svara fyrir mig hefði ég viljað sjá annað svar,“ sagði Willum. Hann sagði þó ekki hafa verið óskað eftir frekari skýringum frá Sigmundi á fundinum um þetta mál. Hann taldi þó geta orðið erfitt fyrir flokkinn að fara í kosningar með þessa umræðu á bakinu.
Þegar Willum var spurður út í kjördæmisþing flokksins á morgun og hvort hann vildi sjá Sigurð Inga tilkynna framboð sitt þar sagði hann: „Já ég held að það væri mjög holt fyrir flokkinn að það yrði kosið um forystu. Sigurður Ingi hefur staðið sig afar vel sem forsætisráðherra. Sigmundur vann glæsilega kosningu norðaustur þannig að við eigum öfluga menn til að tefla fram.“
Sagðist Willum ekki hafa gert upp við sig hvort hann styddi Sigurð Inga. Hann gæti þó hugsað sér að styðja hann og að Sigurður hafi staðið sig frábærlega sem forsætisráðherra. Tók hann fram að um leið og hann segði þetta þá vildi hann benda á að Sigmundur Davíð hafi farið fram með flokkinn í síðustu kosningum og staðið sig vel sem leiðtogi hans.