Um þrjúhundruð sóttu landsþing Viðreisnar í dag, þar sem Benedikt Jóhannesson var endurkjörinn formaður. Jóna Sólveig Elínardóttir var kjörin varaformaður.
Frétt mbl.is: Loforð er loforð - og loforðið var svikið
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, var meðal þeirra sem tóku til máls á landsþinginu og kom meðal annars inn á jafnan atkvæðisrétt Íslendinga óháð búsetu.
„Ég tel til dæmis algjört forgangsatriði að tryggja að atkvæðisréttur allra landsmanna verði jafn, óháð búsetu þeirra. Fötluð kona í Hafnarfirði á að hafa sama rétt og trillukarl fyrir austan, fyrirtækjaeigandi fyrir vestan á að hafa sama atkvæðisrétt og kennari í Kópavoginum – þetta er ósköp einfalt,“ sagði Þorgerður Katrín.
Þorsteinn Víglundsson fór yfir stefnu flokksins í jafnréttismálum og fjallaði m.a. um launamun kynjana.
„Sjálfur á ég þrjár dætur sem aldrei munu sætta sig við að fá 10% lægri laun en jafnaldrar þeirra af hinu kyninu. Þær eiga heldur ekki að gera það né sætta sig við að stjórnmálamenn lofi öllu fögru en taki aldrei á vandanum. Hið opinbera á að gera gangskör í að útrýma þessu óréttlæti í starfsemi sinni.“
Þá talaði Jóna Sólveig, nýkjörinn varaformaður, um mikilvægi ferðaþjónustunnar.
„Við erum komin á þann stað að ferðaþjónustan þarf að fá þann sess sem henni ber sem einn af grunnatvinnuvegunum á Íslandi. Við verðum að halda vel utan um greinina og þá aðila sem þjónusta gestina okkar.“