Formannsslagur er framundan í Framsóknarflokknum þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður flokksins, fer fram gegn sitjandi formanni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Formannskjörið fer fram á flokksþingi framsóknarmanna sem fram fer um næstu helgi en sjálf kosningin fer fram á sunnudaginn. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem farið er gegn sitjandi flokksformanni á síðustu árum hér á landi.
Þannig má nánast segja að skapast hafi hálfgerð hefð fyrir slíku og hefur varla nokkur stjórnmálaflokkur sem á fulltrúa á þingi farið varhluta af því. Skemmst er að minnast þess að síðasta vor var landsfundi Samfylkingarinnar flýtt til þess að hægt væri að kjósa nýjan formann í kjölfar þrýstings frá félagsmönnum sem vildu losna við Árna Pál Árnason úr formannsstólnum vegna slælegrar útkomu flokksins í skoðanakönnunum. Svo fór að Árna ákvað að gefa ekki kost á sér en það var eftir að framboð gegn honum höfðu komið fram. Formannskiptin hafa þó ekki enn skilað sér í auknu fylgi miðað við skoðanakannanir.
Fyrir ári var sömuleiðis skipt um formann í Bjartri framtíð. Slakt gengi í skoðanakönnunum varð líkt og í tilfelli Samfylkingarinnar til þess að efasemdir komu fram um þáverandi formann, Guðmund Steingrímsson. Var að lokum ákveðið að boðað yrði til ársfundar og kosinn nýr formaður. Guðmundur ákvað í kjölfarið að víkja til hliðar. Við formennsku tók Óttarr Proppé alþingismaður. Miðað við kannanir hefur þessi breyting hins vegar ekki leitt til aukins fylgis frekar en í tilfelli Samfylkingarinnar.
Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, fékk einnig mótframboð á landsfundi flokksins árið 2011 þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir bauð sig fram gegn honum. Svo fór að Bjarni hafði betur með 55% gegn 45% sem kusu Hönnu Birnu. Bjarni hafði sjálfur tilkynnt Geir Haarde, þáverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, í janúar 2009 að hann íhugaði framboð gegn honum. Svo fór hins vegar að Geir kaus að draga sig í hlé.
Deilur Pírata fyrr á árinu, og sem enn virðast vera undirliggjandi, snerust meðal annars um formennskuvald innan flokksins. Píratar hafa ekki formlega formann en Birgitta Jónsdóttir alþingismaður hefur verið sökuð um að taka sér slíkt vald án þess að hafa til þess umboð. Meðal annars hefur Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður flokksins, sagt að ef til vill væri betra að skilgreina formannsvaldið frekar en hafa það í lausu lofti.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, hefur hins vegar verið að því er virðist óumdeild innan síns flokks. Í það minnsta hefur ekki verið þrýst á hana að hætta eða hún fengið mótframboð á landsfundum. Hún tók við formennskunni vorið 2013 þegar Steingrímur J. Sigfússon ákvað að hætta sem formaður. Hann hafði þá setið á formannsstóli allt frá því að flokkurinn var stofnaður 1999.