„Við vorum bara að borða pylsur í hádegishlénu þegar Bryndís vinkona mín sér hvað er að gerast,“ sagði Tinna Marín Sigurðardóttir sem varð næstum því undir timburstafla við pylsuvagn Bæjarins bestu rétt fyrir hádegi í dag.
Frétt mbl.is: Krani féll á nýbyggingu í Hafnarstræti
Enginn slasaðist þegar kraninn féll en hann liggur nú á húsþökum tveggja nýbygginga og hefur svæðið verið girt af. Tinna lýsir atburðarrásinni þannig að hún hefði lent undir timbrinu sem féll ef hún hefði ekki náð að hlaupa frá borðinu í tæka tíð.
„Ég sat á bekknum hjá Bæjarins bestu. Við heyrðum mikil læti þegar spýturnar byrja að hrynja úr krananum og Bryndís öskraði á mig og sagði mér að hlaupa. Um leið og ég hljóp frá borðinu hvolfast það vegna þess að spýta lenti á því og síðan finn ég fyrir krananum falla rétt hjá mér.“
Þær vinkonur voru skelfingu lostnar í kjölfar atburðarins og fengu að ná áttum á nálægum veitingastað.
„Við vorum í algjöru sjokki. Kona á veitingastaðnum Hornið bauð okkur að koma inn og fá vatn og síðan kom lögreglan og sjúkrabílar.“