Lilja Dögg kjörin varaformaður

Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur verið kjörin varaformaður Framsóknarflokksins. Þetta kom fram á flokksþinginu sem stendur yfir í Háskólabíói.

Lilja hlaut 392 atkvæði, eða 95,8% atkvæða. Það voru 408 sem greiddu atkvæði en gild atkvæði voru 402. 

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Elsa Lára Arnardóttir hlutu eitt atkvæði hvert. Eygló Harðardóttir hlaut 7 atkvæði. 

Í ræðu sinni þakkaði Lilja Dögg fyrir þann heiður að vera kosin varaformaður. „Ég er djúpt snortin af þessu trausti.“

Þá þakkaði hún fráfarandi formanni flokksins fyrir vel unnin störf og bað fólk um að standa upp og klappa fyrir honum. „Hann og Framsóknarflokkurinn hafa unnið þrekvirki á síðustu árum.“ Hún þakkaði Eygló Harðardóttur, fráfarandi ritara flokksins, fyrir vel unnin störf. 

Lilja lagði áherslu á að flokkurinn myndi nú ganga sameinaður til kosninga þar sem málefnastaðan sé sterk og ekkert að óttast. Hún er spennt fyrir komandi tímum og vegferð. „Það verður gaman hjá okkur og nú er mikilvægt að sameina alla í þessari vegferð okkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert