Heppilegra ef Sigmundur hefði talað

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra ávarpar flokksþing Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra ávarpar flokksþing Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, segir að það hefði verið heppilegra ef Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður flokksins, hefði komið upp á svið eftir að hann tapaði fyrir honum í formannskosningu í Háskólabíói í gær.

Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga í Kastljósi. Spurður hvort það hafi komið honum á óvart þegar Sigmundur Davíð gekk út úr salnum eftir að ljóst var að hann hefði tapað sagði Sigurður: „Ég tók svo sem ekkert eftir þessu. Við vorum staddir á sitt hvorum staðnum,“ sagði hann. „Það hefði verið mjög gott ef hann hefði komið upp á svið og talað fyrir fullum sal af fólki. Það hefði verið heppilegra.“

Frétt mbl.is: Svekktur yfir niðurstöðu kosninga

Ekki heyrt í Sigmundi Davíð 

Sigurði Inga finnst sjálfsagt að Sigmundur Davíð haldi efsta sæti sínu á lista Framsóknarflokksins í  Norðausturkjördæmi en hann hlaut yfirburðakosningu í 1. sætið í síðasta mánuði.

„Hann fékk mjög góða kosningu og hefur stuðning í sínu kjördæmi. Hann er mjög öflugur framsóknarmaður,“ sagði hann.

Sigurður hefur enn ekki heyrt í Sigmundi Davíð eftir flokksþingið í gær. „Við höfum ekki náð saman í dag. Ég hef sent honum skilaboð og við náum án efa saman.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á leið sinni frá Háskólabíói strax eftir …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á leið sinni frá Háskólabíói strax eftir að niðurstaða formannskjörsins var ljós. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fullmikil stóryrði

Hann var spurður út í gagnrýni ákveðins hóps framsóknarmanna, meðal annars um að ekki hafi verið rétt staðið að kosningunni í gær.  „Það hefur ákveðinn hópur verið með fullmikil stóryrði í aðdraganda þessa þings sem í sumum tilvikum hafa haldið áfram. Það er ekki okkur í Framsóknarflokknum til framdráttar,“ sagði Sigurður Ingi.

„Um þessa helgi fór fram kosning með lýðræðislegum hætti sem er hinn eðlilegasti hlutur í stjórnmálahreyfingu. Ég veit ekki hvað formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur er að fara með þessum yfirlýsingum um svindl,“ bætti hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert