Ekkert samtal átt sér stað um þinglok

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar kölluðu enn eft­ir sam­tali milli formanna flokk­anna þegar þing­fund­ur hófst á ný kl. 15 en þeir hafa ít­rekað kraf­ist þess að stjórn­ar­flokk­arn­ir leggi fram áætl­un um þinglok, án þess að hafa fengið svör.

Spurðu þing­menn for­seta, Ein­ar K. Guðfinns­son, hvað hefði breyst frá því að fundi var frestað í morg­un og svarið var ein­falt: ekk­ert. Fjöldi mála er hins veg­ar á dag­skrá og nú stend­ur yfir umræða um sam­göngu­áætlun, gegn mót­mæl­um stjórn­ar­and­stöðu.

Þing­menn og for­seti virt­ust sam­mála um að sam­töl þyrftu að eiga sér stað um hvernig ætti að ljúka þing­inu. Þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar sögðu hins veg­ar ekk­ert sam­tal í gangi og ít­rekuðu þá til­finn­ingu sína að stjórn­arþing­menn og -ráðherr­ar væru í kosn­inga­bar­áttu í héraði á meðan stjórn­ar­and­stöðunni væri haldið í gísl­ingu á þing­inu.

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Bryn­hild­ur Pét­urs­dótt­ir, þingmaður Bjartr­ar framtíðar. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Það kom ít­rekað fram í umræðum um fund­ar­stjórn for­seta að sú mál­efna­skrá sem lögð var fram í vor hefði verið tæmd og að stjórn­ar­andstaðan hefði ekki látið sitt eft­ir liggja við þau störf. Nú vildu menn hins veg­ar bæta við hverju mál­inu á fæt­ur öðru við en þing­menn minni­hlut­ans bentu marg­ir á að nýtt þing gæti hæg­lega tekið á þeim mál­um sem eft­ir sitja.

Jón Gunn­ars­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sakaði and­stæðinga sína um „grimmi­legt málþóf“ en fékk þau svör frá Bryn­hildi Pét­urs­dótt­ur, þing­manni Bjartr­ar framtíðar, að hann ætti að láta þau skila­boð ganga til sam­flokks­manna sinna að mæta á nefnd­ar­fundi.

Fram kom á þing­fundi í morg­un að mæt­ingu stjórn­ar­liða á nefnd­ar­fundi hefði verið áfátt í gær og í dag.

Odd­ný G. Harðardótt­ir, formaður Samfylkingarinnar.
Odd­ný G. Harðardótt­ir, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Birgitta Jóns­dótt­ir, þingmaður Pírata, sagði áfram­hald­andi þing­störf ekk­ert nema sýnd­ar­mennsku og lagði til að fyr­ir­liggj­andi hafta­mál yrði klárað og þing rofið í fram­hald­inu. Und­ir þetta tóku fleiri þing­menn.

Björt Ólafs­dótt­ir, þingmaður Bjartr­ar framtíðar, sagði að ekk­ert lægi fyr­ir um hvaða mál ætti að af­greiða og Odd­ný G. Harðardótt­ir, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði ótækt að halda þing­fundi á meðan ekki lægi fyr­ir hvernig ljúka ætti þing­inu.

Odd­ný sagði ekki hafa staðið á stjórn­ar­and­stöðunni að mæta til sam­tals við for­menn stjórn­ar­flokk­anna en eng­ar viðræður hefðu átt sér stað.

Helgi Hrafn Gunn­ars­son, þingmaður Pírata, sagði tvenn­ar staðreynd­ir liggja fyr­ir; ann­ars veg­ar að ekk­ert myndi fara fram fyrr en for­svars­menn flokk­anna hefðu rætt sam­an, og hins veg­ar að ráðherr­ar væru farn­ir í kosn­inga­bar­áttu úti á landi.

Hvers vegna að halda hér fundi í stað þess að tala sam­an, spurði Helgi Hrafn for­seta.

Einar K. Guðfinsson, forseti Alþingis.
Ein­ar K. Guðfins­son, for­seti Alþing­is. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Þing­for­seti, Ein­ar K. Guðfinns­son, sagði aðspurður að næstu skref væru þau að full­trú­ar flokk­anna ræddu sam­an um þá stöðu sem upp væri kom­in og reyndu að ná sam­an um ramma sem hægt væri að vinna út frá. Fyrr væri ekk­ert hægt að segja um loka­dag þings­ins.

„Stundaglasið er tómt,“ sagði Lilja Raf­ney Magnús­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, og sagði að það þyrfti, ja ef ekki drullu­sokk, þá eitt­hvað annað til að losa stífl­una hjá rík­is­stjórn­inni.

Þegar Jón Gunn­ars­son benti á að for­dæmi væru fyr­ir því að þing héldi áfram langt fram að kosn­ing­um svaraði Ásta Guðrún Helga­dótt­ir, þingmaður Pírata, því til að aðstæður hefðu verið aðrar 2009; „hér varð hrun,“ sagði hún.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helga­dótt­ir, þingmaður Pírata. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Ásta Guðrún benti á að ástæður þess að boðað hefði verið til kosn­inga í haust væri ann­ars kon­ar hrun; siðferðilegt hrun, Panama-hrun, og að Sjálf­stæðis­flokk­ur og Fram­sókn­ar­flokk­ur þyrftu að læra að gang­ast við því.

Össur Skarp­héðins­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði eng­in mál ókláruð nema þau sem ráðherr­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar vildu ljúka til að reisa sér bauta­steina, viss­ir um að þeir ættu ekki aft­ur­kvæmt á ráðherra­bekk­inn. Hann benti á að nú ætti að ræða sam­göngu­áætlun en inn­an­rík­is­ráðherra væri ekki í saln­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka