Þingmenn stjórnarandstöðunnar kölluðu enn eftir samtali milli formanna flokkanna þegar þingfundur hófst á ný kl. 15 en þeir hafa ítrekað krafist þess að stjórnarflokkarnir leggi fram áætlun um þinglok, án þess að hafa fengið svör.
Spurðu þingmenn forseta, Einar K. Guðfinnsson, hvað hefði breyst frá því að fundi var frestað í morgun og svarið var einfalt: ekkert. Fjöldi mála er hins vegar á dagskrá og nú stendur yfir umræða um samgönguáætlun, gegn mótmælum stjórnarandstöðu.
Þingmenn og forseti virtust sammála um að samtöl þyrftu að eiga sér stað um hvernig ætti að ljúka þinginu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu hins vegar ekkert samtal í gangi og ítrekuðu þá tilfinningu sína að stjórnarþingmenn og -ráðherrar væru í kosningabaráttu í héraði á meðan stjórnarandstöðunni væri haldið í gíslingu á þinginu.
Það kom ítrekað fram í umræðum um fundarstjórn forseta að sú málefnaskrá sem lögð var fram í vor hefði verið tæmd og að stjórnarandstaðan hefði ekki látið sitt eftir liggja við þau störf. Nú vildu menn hins vegar bæta við hverju málinu á fætur öðru við en þingmenn minnihlutans bentu margir á að nýtt þing gæti hæglega tekið á þeim málum sem eftir sitja.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sakaði andstæðinga sína um „grimmilegt málþóf“ en fékk þau svör frá Brynhildi Pétursdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar, að hann ætti að láta þau skilaboð ganga til samflokksmanna sinna að mæta á nefndarfundi.
Fram kom á þingfundi í morgun að mætingu stjórnarliða á nefndarfundi hefði verið áfátt í gær og í dag.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði áframhaldandi þingstörf ekkert nema sýndarmennsku og lagði til að fyrirliggjandi haftamál yrði klárað og þing rofið í framhaldinu. Undir þetta tóku fleiri þingmenn.
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að ekkert lægi fyrir um hvaða mál ætti að afgreiða og Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði ótækt að halda þingfundi á meðan ekki lægi fyrir hvernig ljúka ætti þinginu.
Oddný sagði ekki hafa staðið á stjórnarandstöðunni að mæta til samtals við formenn stjórnarflokkanna en engar viðræður hefðu átt sér stað.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði tvennar staðreyndir liggja fyrir; annars vegar að ekkert myndi fara fram fyrr en forsvarsmenn flokkanna hefðu rætt saman, og hins vegar að ráðherrar væru farnir í kosningabaráttu úti á landi.
Hvers vegna að halda hér fundi í stað þess að tala saman, spurði Helgi Hrafn forseta.
Þingforseti, Einar K. Guðfinnsson, sagði aðspurður að næstu skref væru þau að fulltrúar flokkanna ræddu saman um þá stöðu sem upp væri komin og reyndu að ná saman um ramma sem hægt væri að vinna út frá. Fyrr væri ekkert hægt að segja um lokadag þingsins.
„Stundaglasið er tómt,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, og sagði að það þyrfti, ja ef ekki drullusokk, þá eitthvað annað til að losa stífluna hjá ríkisstjórninni.
Þegar Jón Gunnarsson benti á að fordæmi væru fyrir því að þing héldi áfram langt fram að kosningum svaraði Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, því til að aðstæður hefðu verið aðrar 2009; „hér varð hrun,“ sagði hún.
Ásta Guðrún benti á að ástæður þess að boðað hefði verið til kosninga í haust væri annars konar hrun; siðferðilegt hrun, Panama-hrun, og að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur þyrftu að læra að gangast við því.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði engin mál ókláruð nema þau sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar vildu ljúka til að reisa sér bautasteina, vissir um að þeir ættu ekki afturkvæmt á ráðherrabekkinn. Hann benti á að nú ætti að ræða samgönguáætlun en innanríkisráðherra væri ekki í salnum.