Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, brást reiður við í ræðustól Alþingis í dag þegar Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði fram í fyrir honum. Steingrímur flutti ræðu undir liðnum störf þingsins og gagnrýndi hann þar að þingi væri ekki slitið svo þingmenn gætu staðið í kosningabaráttu.
Þannig væri nú í gangi þing sambands sveitarfélaga á Seyðisfirði og væri þingmönnum kjördæmisins ætlað að vera þar. Þá vísaði Steingrímur til þess að sumir þingmenn væru þegar byrjaðir að heyja sína baráttu og vísaði til mætingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Með þeirri ákvörðun væri hann aftur á móti að vanrækja þingskyldu sína.
Sagði Steingrímur þessa stöðu ekki ganga upp og skoraði hann á forseta að láta þetta ekki líðast. Kallaði Jón þá fram í fyrir Steingrími sem brást reiður við. „Hættu að gjamma fram í endalaust Jón Gunnarsson,“ sagði Steingrímur og bætti við: „Þú þarft að fara á námskeið í mannasiðum.“