Ríkisstjórnin fór illa með árangurinn

Odd­ný G. Harðardótt­ir, formaður Samfylkingarinnar.
Odd­ný G. Harðardótt­ir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að það sé óréttlátt hvernig núverandi ríkisstjórn hafi farið með þann árangur sem flokkurinn hafi náð á síðasta kjörtímabili.

„Það er mjög sárt að horfa upp á hvernig hún fór með þann árangur sem við náðum,“ sagði Oddný í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni og nefndi sem dæmi að ríkisstjórnin hafi lækkað veiðigjöldin og lækkað neysluskatt á ferðamenn.

Einnig benti hún á að ef áætlanir flokksins um 12 mánaða fæðingarorlof hefðu fengið að standa væri slíkt orlof við lýði í dag.

Spurð út í stöðu Samfylkingarinnar í dag og hvort almenningur sé að „kaupa“ stefnu flokksins svaraði hún: „Ég þarf að tala skýrt við kjósendur og fá þá til að trúa því að mér sé treystandi til að standa við þessi loforð.“ Á meðal þeirra loforða eru endurreisn heilbrigðiskerfisins.

„Við kunnum að stjórna. Við kunnum á efnahagsmálin en við erum líka með hjartað á réttum stað.“

Hvað varðar árangur Samfylkingarinnar í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili sagði hún flokkinn hafa unnið við erfiðar aðstæður. „Við vorum að vinna við fordæmalausar aðstæður og við stóðum okkur býsna vel,“ sagði hún.

Benti hún á að bætur hafi hækkað, réttur til atvinnuleysisbóta hafi verið lengdur og að skattbyrði hafi verið lækkuð hjá þeim sem höfðu minnst á milli handanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert