Helgi Helgason, formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar, staðfesti í samtali við mbl.is að þjóðfylkingin hefði ekki náð að skila inn framboðslistum í Reykjavíkurkjördæmunum. Frestur til að skila inn framboðslistum vegna alþingiskosninga rann út í hádeginu.
Helgi segir að helsta ástæðan sé sú að Gústaf og Gunnlaugur yfirgáfu flokkinn í gær. „Þetta fólk sem fór úr flokknum tók með sér gögn og neitaði að afhenda gögn, meðmælandalista og annað sem þarf til að skila löglegu framboði. Ef við hefðum haft einn dag í viðbót hefðum við sennilega getað skilað í báðum kjördæmum.“
Aðspurður sagðist Helgi vera pirraður á aðgerðum Gústafs og Gunnlaugs. „Þetta er ákaflega óþverralegt. Ég get ekki séð að svona framkoma hafi eitthvað með hugsjónir að gera. Hér er bara á ferðinni einhvers konar skemmdarverkastarfsemi og eigin egó-ismi. Auðvitað er þetta mjög pirrandi.“
Íslenska þjóðfylkingin býður sig fram í Suður-, Suðvestur- og Norðvesturkjördæmi.