Íslenska þjóðfylkingin skilaði ekki inn framboðslistum í Reykjavíkurkjördæmunum en frestur til að skila inn framboðslistum vegna alþingiskosninganna 29. október næstkomandi rann út á hádegi. Þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.
Þjóðfylkingin skilaði einungis inn framboðslistum í Suður-, Suðvestur- og Norðvesturkjördæmi.
Fram kom í fréttum í gær að Gústaf Adolf Níelsson sagnfræðingur og Gunnlaugur Ingvarsson bifreiðarstjóri hefðu ákveðið að draga framboð sín fyrir Íslensku þjóðfylkinguna til baka. Gústaf var oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og Gunnlaugur leiddi framboðslistann í Reykjavíkurkjördæmi suður.