Leifar Nicole nálgast landið

AFP

Þrátt fyrir meinlaust veður í dag þá dregur til tíðinda á miðvikudag. Þá gengur í sunnan storm með rigningu. Hvassast verður vestanlands og má búast við varasömum vindstrengjum á Snæfellsnesi. Um er að ræða leifar fellibyljarins Nicole sem er sérstakur fyrir ýmsar sakir, segir veðurfræðingur. 

„Það er lítið að gerast í veðrinu hjá okkur í dag og á morgun og því er spáin stutt og laggóð:
Austlæg átt í dag, víða 3-8 m/s, en vestlægari á morgun. Dálítil væta í flestum landshlutum og hiti 5 til 10 stig.

Á miðvikudag dregur til tíðinda. Þá gengur í sunnan storm með rigningu. Hvassast verður vestanlands og má t.d. búast við varasömum vindstrengjum á norðanverðu Snæfellsnesi. Á Norður- og Austurlandi verður þurrt að kalla og þar hlýnar, hiti gæti náð í um eða yfir 15 stig í hnjúkaþey (svo kallast hlýr vindur sem stendur af fjöllum). Spár gera ráð fyrir að sunnan stormurinn standi í meira en sólarhring og ekki fari að draga almennilega úr vindi fyrr en síðdegis á fimmtudag.

Lægðin sem gert er ráð fyrir að valdi umræddum stormi á Íslandi er leifar af fellibylnum Nicole. Sá fellibylur er athyglisverður og þá einkum fyrir það hvað hann hefur verið langlífur. Nicole hefur verið á hægri siglingu djúpt úti fyrir austurströnd Bandaríkjanna og lamdi á Bermúda eyjum á fimmtudag síðastliðinn, þá fellibylur af þriðja styrkleikaflokki (af 5).

En þegar leifar Nicole eru væntanlegar inn á kunnuglegar lægðaslóðir á Grænlandshafi á miðvikudag næstkomandi verður ekki um að ræða fellibyl lengur, heldur „bara“ venjulega stormlægð sem við Íslendingar þekkjum vel,“ skrifar vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í hugleiðingum sínum á vef Veðurstofunnar.

Veður á mbl.is

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Austlæg átt í dag, víða 3-8 m/s, en vestlægari á morgun. Dálítil væta í flestum landshlutum og hiti 5 til 10 stig.

Á þriðjudag:

Vestan 3-10 m/s og lítilsháttar væta, hiti 3 til 8 stig. Þurrt á Suðausturlandi og Austfjörðum með hita að 10 stigum.

Á miðvikudag:
Gengur í sunnan 15-23 m/s, hvassast vestanlands. Rigning eða súld, en úrkomulítið á Norður- og Austurlandi. Hlýnandi veður, hiti 8 til 15 stig síðdegis, hlýjast norðaustantil á landinu.

Á fimmtudag:
Sunnan 18-23 og rigning framan af degi, en þurrt um landið norðaustanvert. Áfram hlýtt í veðri. Dregur úr vindi og úrkomu eftir hádegi, sunnan 8-15 undir kvöld og kólnar.

Á föstudag og laugardag:
Suðaustanátt, víða 8-13 m/s. Lengst af bjartviðri norðanlands, en rigning með köflum annars staðar, einkum á Suðausturlandi. Hiti 7 til 12 stig.

Á sunnudag:
Útlit fyrir að lægi á landinu og stytti upp.

Fellibylurinn Nicole.
Fellibylurinn Nicole. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert