Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segist hafa rætt meira við Sigurð Inga Jóhannsson, núverandi forsætisráðherra og formann flokksins, en móður sína síðastliðin átta ár.
Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
„Undanfarin átta ár hef ég talað töluvert meira við Sigurð Inga heldur en móður mína þannig að það er allt í lagi að það verði smá viðsnúningur á því í smá tíma,“ er haft eftir Sigmundi Davíð í frétt RÚV.
Hann sagðist ekki vilja rekja það hvernig samskiptum hans og Sigurðar hefði verið háttað eftir að hann laut í lægra haldi fyrir síðarnefnda á flokksþingi en þeir hygðust hittast þegar þeir væru í sama landshluta.
Spurður að því hvort hann væri í fýlu við formanninn, sagði Sigmundur:
„Ég er bara búinn að svara þessu held ég nógu oft.“