Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun halda áfram að ræða við forystufólk flokkanna á morgun með það fyrir augum að taka afstöðu til veitingar umboðs til stjórnarmyndunar á næstu dögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsetaembættinu.
„Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson hefur í dag, mánudaginn 31. október, átt viðræður við forystumenn allra þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á nýkjörnu Alþingi. Með viðræðunum var varpað ljósi á þá stöðu sem nú hefur skapast eftir að sitjandi ríkisstjórn missti þingmeirihluta sinn,“ segir í tilkynningunni.
„Á morgun mun forseti ræða áfram við forystufólk flokkanna með það fyrir augum að taka afstöðu til veitingar umboðs til stjórnarmyndunar á næstu dögum.“