Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafði samband við Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar í dag.
„Ég vil ekkert láta hafa eftir mér um trúnaðarsamtöl hvorki við hann né aðra,“ segir Benedikt, spurður út í hvað þeim fór á milli.
Frétt mbl.is: Þrír óska eftir umboði
Forsetinn ætlaði að ræða í dag við fomenn þeirra þriggja stjórnmálaflokka sem hafa sóst eftir umboði til stjórnarmyndunar, eða formenn Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Hann hyggst taka afstöðu til veitingar umboðs til stjórnarmyndunar á næstu dögum.
Benedikt segist ekki vita hvenær það muni draga til tíðinda varðandi stjórnarmyndun. „Maður bíður bara spenntur eftir því að sjá hvað forsetinn lætur gerast í vikunni.“
Aðspurður kveðst Benedikt opinn fyrir samstarfi við hvaða flokk sem er. Allt fari það þó eftir því hvar málefnagrundvöllurinn liggur.
Annars segist hann vera rólegur yfir stöðu mála. „Ég verð ekki andvaka í nótt.“