Kristján Guy Burgess hefur sagt upp sem framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar vegna fylgishruns flokksins í nýafstöðnum alþingiskosningum.
„Það var alltaf ljóst í mínum huga að á milli mín og þeirra sem réðu mig á sínum tíma færi það eftir úrslitunum hvernig framhaldið yrði. Það var frá upphafi stefnt að því að ná miklu betri úrslitum. Ég setti mér ákveðna mælikvarða þar og markmið og þegar úrslitin eru svona er ágætt að stíga til hliðar og taka þetta skref,“ segir Kristján í samtali við mbl.is en hann hóf störf hjá Samfylkingunni fyrir ári.
Frétt mbl.is: Uppsagnir hjá Samfylkingunni
Hann segir slakt gengi flokksins hafa verið mikil vonbrigði á því ári sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Sjálfur beri hann hluta ábyrgðarinnar.
„Ég tek til mín það sem mér ber. Ég réð mig til þess að hjálpa til við að byggja upp Samfylkinguna til lengri tíma. Það sem hefur verið gripið til á þessu ári hefur ekki dugað til.“
Kristján segir ekki ljóst hver muni taka við sínu starfi. „Flokkurinn er að draga saman seglin í ljósi niðurstöðunnar. Tíminn verður að leiða í ljós hvernig hann verður byggður upp aftur.“
Auk Kristjáns eru tveir aðrir starfsmenn Samfylkingarinnar að hætta störfum fyrir flokkinn.