„Ég bað ekki um þessa kauphækkun. Ég vissi ekki af þessari kauphækkun. Ég þarf ekki þessa kauphækkun," sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er hann var spurður eftir fund sinn með Bjarna Benediktssyni á Bessastöðum út í ákvörðun kjararáðs um launahækkun forseta, alþingismanna og ráðherra.
„Þingmenn hafa lýst andúð sinni á þessari ákvörðun kjararáðs. Ég vænti þess að þingið vindi þá ofan af þessari ákvörðun og taki málið í sínar hendur. Ég myndi sætta mig fullkomlega við þá niðurstöðu sem fengist að því loknu," sagði hann.
„Ákveði þingið að þessari ákvörðun verði hnekkt með einhverjum hætti leyfi ég mér að ítreka að ég yrði fullkomlega sáttur við það. Þangað til sé ég til þess að þessi hækkun renni ekki í minn vasa.“
Hann vildi ekki tjá sig um hvert hækkunin myndi renna. „Þarf ég að segja það? Á ég að vera einhver Móðir Theresa sem gortar af því?"