Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist munu í helgarlok eða strax á mánudag gera Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, grein fyrir gangi stjórnarmyndunarviðræðna. Í samtölum sínum við forseta, sem síðastliðinn þriðjudag fól Bjarna stjórnarmyndunarumboð, hafi þetta verið sett sem tímarammi.
Rætt við baklandið
Engir formlegir fundir um myndun ríkisstjórnar eru á dagskrá um helgina. Eigi að síður eru mál á ákveðinni hreyfingu og fólk í forystusveitum stjórnmálaflokkanna ræðir við baklandið, hver í sínum ranni. „Ég finn eftir vikuna að það var þörf hjá formönnunum að hlusta á sitt bakland. Slíkt þarf ég líka að gera gagnvart mínu fólki,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is.
„Eins og landið liggur núna finnst mér jákvætt að allir í stjórnmálunum finna til ábyrgðar þegar mynda þarf ríkisstjórn. Okkur sem höfum valist til forystu ber líka skylda til að finna lausnir á málum,“ sagði Bjarni.
Í viðræðum um stjórnarmyndun hefur Bjarni fundað með formönnum og fulltrúum allra flokka. Mest hefur formaður Sjálfstæðisflokksins rætt við Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formann Bjartrar framtíðar. Saman komu þeir tveir til fundar við Bjarna sem segir það hafa verið „allt í lagi mín vegna“ eins og hann kemst að orði.
Margir snertifletir
En geta Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð náð saman um myndun ríkisstjórnar sem hefði eins manns meirihluta á Alþingi, eða samtals 32 menn?
Um viðræðurnar almennt segir Bjarni að hjá þessum flokkum séu margir snertifletir þannig að samstarf geti gengið upp. „Við hins vegar þurfum að ramma inn ákveðin atriði og ræða sérstaklega,“ segir Bjarni og nefnir þar gjaldtöku í sjávarútvegi, Evrópumál og áframhaldandi vinnu við endurskoðun búvörusamninga.
„Ég er bjartsýnn á áframhald viðræðna. Um Sjálfstæðisflokkinn get ég sagt að auðvitað vilja menn vera þátttakendur í ríkisstjórn sem hefur styrk og burði til þessa að leiða mikilvæg mál,“ segir Bjarni að lokum.