Bjarni: Allir finna til ábyrgðar

Bjarni Benediktsson nú í eftirmiðdaginn fyrir utan heimili sitt í …
Bjarni Benediktsson nú í eftirmiðdaginn fyrir utan heimili sitt í Garðabæ. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, seg­ist munu í helgar­lok eða strax á mánu­dag gera Guðna Th. Jó­hann­es­syni, for­seta Íslands, grein fyr­ir gangi stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðna. Í sam­töl­um sín­um við for­seta, sem síðastliðinn þriðju­dag fól Bjarna stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boð, hafi þetta verið sett sem tím­arammi.

Rætt við baklandið

Eng­ir form­leg­ir fund­ir um mynd­un rík­is­stjórn­ar eru á dag­skrá um helg­ina. Eigi að síður eru mál á ákveðinni hreyf­ingu og fólk í for­ystu­sveit­um stjórn­mála­flokk­anna ræðir við baklandið, hver í sín­um ranni. „Ég finn eft­ir vik­una að það var þörf hjá for­mönn­un­um að hlusta á sitt bak­land. Slíkt þarf ég líka að gera gagn­vart mínu fólki,“ sagði Bjarni í sam­tali við mbl.is. 

„Eins og landið ligg­ur núna finnst mér já­kvætt að all­ir í stjórn­mál­un­um finna til ábyrgðar þegar mynda þarf rík­is­stjórn. Okk­ur sem höf­um val­ist til for­ystu ber líka skylda til að finna lausn­ir á mál­um,“ sagði Bjarni.

Í viðræðum um stjórn­ar­mynd­un hef­ur Bjarni fundað með for­mönn­um og full­trú­um allra flokka. Mest hef­ur formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins rætt við Bene­dikt Jó­hann­es­son, formann Viðreisn­ar, og Ótt­arr Proppé, formann Bjartr­ar framtíðar.  Sam­an komu þeir tveir til fund­ar við Bjarna sem seg­ir það hafa verið „allt í lagi mín vegna“ eins og hann kemst að orði.

Marg­ir snertiflet­ir 

En geta Sjálf­stæðis­flokk­ur, Viðreisn og Björt framtíð náð sam­an um mynd­un rík­is­stjórn­ar sem hefði eins manns meiri­hluta á Alþingi, eða sam­tals 32 menn?

Um viðræðurn­ar al­mennt seg­ir Bjarni að hjá þess­um flokk­um séu marg­ir snertiflet­ir þannig að sam­starf geti gengið upp. „Við hins veg­ar þurf­um að ramma inn ákveðin atriði og ræða sér­stak­lega,“ seg­ir Bjarni og nefn­ir þar gjald­töku í sjáv­ar­út­vegi, Evr­ópu­mál og áfram­hald­andi vinnu við end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga.

„Ég er bjart­sýnn á áfram­hald viðræðna. Um Sjálf­stæðis­flokk­inn get ég sagt að auðvitað vilja menn vera þátt­tak­end­ur í rík­is­stjórn sem hef­ur styrk og burði til þessa að leiða mik­il­væg mál,“ seg­ir Bjarni að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert