Fundaði með Óttari og Benedikt

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hitti í dag Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formann Bjartrar framtíðar, á fundi. Ræddust þeir við, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, í um eina og hálfa klukkustund og er fundurinn sagður hafa verið „fínn.“

Fundur Bjarna með Benedikt og Óttari er sá fyrsti með formönnum flokka á Alþingi frá því fyrir helgi. Ekki er vitað hvort Bjarni ætli að boða aðra formenn til fundar við sig, en samkvæmt heimildum er það „ekki útilokað“.

„Þessi fundur var í raun framhald af okkar fyrra samtali við Bjarna og í raun ekkert að frétta þannig, þ.e. það hefur ekkert verið ákveðið varðandi framhaldið,“ segir Óttarr í samtali við blaðamann og bætir við að bæði Viðreisn og Björt framtíð hafi fundað innbyrðis þar sem farið var yfir stöðuna. „Svo hafa líka verið einhver samtöl á milli flokka, en allt saman óformlegt.“

Frá því að formaður Sjálfstæðisflokksins tók við umboði til stjórnarmyndunar frá forseta Íslands sl. miðvikudag hefur hann átt fundi með forsvarsmönnum allra flokka á Alþingi auk þingflokks síns. Formlegar viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar eru þó ekki hafnar.

Aðspurður segir Óttarr menn hafa vitað fyrirfram að Bjarni myndi gefa sér góðan tíma áður en hann hefur formlega viðræður um stjórnarmyndun. „Við erum hæfilega róleg - enda vitum við að þetta eru verkefni næstu fjögurra ára sem eru undir. Það þýðir ekkert fúsk og eins gott að menn vandi sig.“

Benedikt Jóhannesson (t.v.) og Óttarr Proppé á fundi Bjarna Benediktssonar …
Benedikt Jóhannesson (t.v.) og Óttarr Proppé á fundi Bjarna Benediktssonar í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert