Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður fyrir lok þessarar viku. Hann fundaði með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands í dag.
Þetta kemur fram á vefsíðu forsetaembættisins.
Bjarni gerði Guðna grein fyrir stöðu mála á fundinum og greindi honum frá fyrirætlan sinni varðandi stjórnarmyndunarviðræðurnar.
Bjarni fékk stjórnarmyndunarumboðið hjá forseta Íslands á miðvikudaginn í síðustu viku.
Viðreisn, Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkur ræddu saman í gær. Þeir eru með 32 menn á þingi og því ekki nema um eins manns meirihluta að ræða.