Viðreisn og Björt framtíð héldu sameiginlegan þingflokksfund í dag. Báðir flokkar hafa gengið sameiginlega til viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn um mögulega stjórnarmyndun.
„Við vildum fara yfir mál með þeim og sjá hvort það væri ekki örugglega sá samhljómur milli flokkanna sem hafði myndast að undanförnu í samræðum formanna,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Aðspurður segir hann að fundurinn hafi gengið mjög vel og bætti við að enginn grundvallarágreiningur væri á milli flokkanna.
Formennirnir heyrðu í Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, áðan. „Þetta var bara eins og Bjarni sagði um daginn, „enn einn fundurinn“. Honum lauk hvorki með niðurstöðu um að menn ætluðu ekki að tala saman aftur eða að menn ætli að taka upp formlegar viðræður.“
Bjarni hefur talað um að hann ætli að gera upp hug sinn í vikunni varðandi mögulega stjórnarmyndun. Spurður hvort aukin pressa sé ekki farin að myndast, segir Benedikt: „Ekki af minni hálfu en hann reynir eflaust að standa við sína áætlun.“ Ekkert verið ákveðið með fund á morgun.
Þrátt fyrir að hafa haldið sameiginlegan þingflokksfund segir Benedikt að sameining Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sé ekki í kortunum. „Þetta er fyrst og fremst málefnaleg samstaða í stjórnarmyndunarviðræðum sem við erum að tala um.“