Viðræður hefjast á morgun

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kemur til fundar við þingflokk sinn …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kemur til fundar við þingflokk sinn í Valhöll í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Menn eru ánægðir með að við séum komin á þennan stað. Það eru allir sammála um að við eigum að láta reyna á þennan valkost. Línur hafa skýrst frá kosningum og smám saman hefur staðan þrengst niður í það að það var í raun og ver bara einn kostur eftir og við viljum láta reyna á hann,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is eftir að hafa fundað með þingflokki Sjálfstæðismanna.

Frétt mbl.is: Formlegar viðræður hafnar

Bjarni gekk á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, í dag áður en hann fundaði með þingflokknum og tilkynnti honum að til stæði að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar en formenn flokkanna hafa fundað reglulega að undanförnu frá því að forsetinn veitti Bjarna umboð til stjórnarmyndunar í byrjun síðustu viku. Gert er ráð fyrir að viðræðurnar hefjist á morgun.

„Við ætlum að láta reyna á stjórnarsáttmála núna og við teljum að þessi samtöl hafi leitt það í ljós að það séu nægilega margir samstarfsfletir. Og við munum nýta tímann vel, vinnan hefst á morgun og vonandi sjáum við til lands innan fárra sólarhringa. Við erum sammála um að láta þetta ganga hratt fyrir sig, eins hratt og hægt er, og ég er ágætlega bjartsýnn á að það takist vel,“ sagði Bjarni ennfremur eftir þingflokksfundinn.

Besta leiðin þrátt fyrir nauman meirihluta

Varðandi Evrópumálin sagði hann að ein leið gæti verið sú að málið færi til þingsins með einhverjum hætti. Það ætti hins vegar eftir að ræða það betur. Málið hefði verið það síðasta sem hefði verið á borði formanna flokkanna áður en ákveðið hefði verið að hefja formlegar viðræður.

„Við ætlum að halda áfram að finna leiðir í því og ég er viss um að það tekst ágætlega.“ Viðræðurnar yrðu ekki aðeins með þátttöku formannanna heldur myndu þeir virkja sitt fólk í þeim efnum. Aðspurður sagðist hann vonast til þess að það lægi fyrir um miðja næstu viku hvort hægt yrði að landa stjórnarsáttmála.

Frétt mbl.is: Evrópumálin líklega til þingsins

„Við höfum átt þónokkuð mörg samtöl og við þekkjum stefnur flokkanna og við erum nýkomin út úr kosningabaráttu. Við finnum það að það eru snertifletir víða. Eftir þessi samtöl eru ekki mörg mál sem ég hef áhyggjur af fyrir þennan stjórnarsáttmála eða gerð hans. Þannig að þetta ætti að geta tekið stuttan tíma. Spurður um tæpan þingmeirihluta flokkanna þriggja og hvort ekki skipti máli að allir væru samstiga sagði Bjarni:

„Við erum meðvituð um það en eftir samtöl við aðra formenn þá taldi ég að þrátt fyrir mjög nauman meirihluta þessarar stjórnar þá væri þetta besta leiðin fram á við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert