Það væri með öllu óviðunandi ef Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn létu heimspekilegan ágreining koma í veg fyrir stjórnarsamstarf. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
Segir hann landslag íslenskra stjórnmála vera allt annað nú en áður, „þegar flokkarnir voru fáir en stórir og sterkir og lítill vandi að sjóða saman tveggja flokka stjórn. Nú eru þeir margir og litlir og má leiða að því rök að þeir gegni allt annars konar hlutverki í samfélaginu.“
Kári bendir á að mun meiri líkur séu á friði og sátt í samfélaginu, eftir því sem skoðanir í ríkisstjórn endurspegla stærri hluta af skoðanarófi þess.
„Þess vegna viljum við hvorki hægri- né vinstriríkisstjórn heldur þá sem er jafnhent. Sú ríkisstjórn verður að hafa innbyrðis tvo stærstu stjórnmálaflokka landsins sem eru á sitthvorum endanum á þeirri línu sem við röðum pólitískri fílósófíu á.“
Þá segist hann handviss um að ekki þurfi annað en þann kraft sem felist í væntumþykju fyrir íslensku samfélagi, „til þess að beygja þessa línu í hring þannig að endarnir komi saman“.
„Það væri með öllu óviðunandi ef þessir flokkar létu fílósófískan ágreining koma í veg fyrir stjórnarsamstarf vegna þess að á tímum smáflokkanna getur hver einstakur flokkur ekki haft áhrif á stjórn landsins án þess að vinna með þeim sem eru á öndverðum meiði um margt.
Það er hætt við því að sá stjórnmálaflokkur sem þróar ekki með sér viljann og getuna til þessa velkist í erindisleysi uns hans bíða þau örlög Samfylkingarinnar að það er ekki lengur hægt að spila bridge á þingflokksfundum.“