Ákvað sjálf að taka ekki sæti í vinnuhópnum

Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is

Nichole Leigh Mosty er eini þingmaður Bjartrar framtíðar sem situr ekki í vinnuhóp flokksins í málefnavinnu vegna stjórnarmyndarviðræðna Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Í samtali við mbl.is segir Nichole það hafa verið sitt val að taka ekki sæti í vinnuhópnum en sjálf sé hún sterk í baklandinu.

„Ég er leikskólastjóri að mennt og taldi að það væri betra að hafa fólk sem er vanara viðræðum sem þessum og hefur meiri þekkingu á málefnum Bjartrar framtíðar sem unnin voru á síðasta kjörtímabili. Ég bað því um að fá að taka sæti í baklandinu og hjálpa til þegar þess þarf og hef verið virk í því. Við erum mjög samheldin.“

Rætt um málefnin og allt egó dregið til baka 

Nichole líst vel á stjórnarmyndunarviðræðurnar sem nú eru í gangi. „Allir sem mæta til borðs eru heiðarlegir og það er það sem skiptir máli. Það er rætt um málefni og allt egó dregið til baka því við vitum að þjóðin sem heild þarf sátt.“

Spurð út í þá gagnrýni sem Björt framtíð hefur fengið undanfarna daga frá fólki á vinstrivængnum sem segir flokkinn vera svíkja lit segir Nichole fólk vera að sýna of miklar tilfinningar með því að fordæma flokkinn. „Ég tel að það sé best að sjá hvernig þessar viðræður fara og hverju við náum fram og hverju ekki, áður en fólk fer að dæma okkur,“ segir Nichole.

Þá segir hún fólk gjarnan segja ýmislegt sem sé kannski ekki alveg í takt við raunveruleikann þar sem Bjarni er með stjórnarmyndunarumboðið; eins og: „Af hverju var ekki reynt að mynda vinstristjórn?“

„Ég held að það sé best að reyna þetta og treysta okkur til þess að standa vörð um það sem um var rætt með vinstriflokkunum fyrir kosningar. Okkar sjónarmið hafa ekki breyst þar,“ segir Nichole.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert