„Við fengum ekki það fylgi sem við vorum með í könnunum. Það má náttúrlega bara túlka það á ákveðinn hátt, að það sé ekki óskað eftir okkur í forystu eins og er,“ sagði Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun spurður hvort Píratar hefðu á vissan hátt dæmt sig úr leik að eigin frumkvæði í stjórnarmyndunarþreifingum.
Gunnar Hrafn sagði ljóst að Píratar hefðu ekki fengið það umboð sem flokkurinn hefði óskað eftir. Þeir hefðu lagt spilin á borðið fyrir kosningarnar og lýst því yfir að ekki hann væri ekki tilbúinn að gefa eftir varðandi ákveðin mál. En Píratar væru eftir sem áður reiðubúnir að leika hvaða hlutverk sem þyrfti til þess að tryggja stöðugleika annaðhvort í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Gunnar sagði ennfremur að ákveðin særindi væru á meðal Pírata gagnvart Bjartri framtíð fyrir að hafa ákveðið að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn eftir kosningarnar eftir að hafa verið í viðræðum við vinstriflokkana fyrir kosningar um samstarf.