„Þetta tekur lengri tíma en við áætluðum. Við erum ekki komin jafn langt og ég hélt við yrðum komin í kvöld, en við gáfum okkur nú helgina og mánudaginn í að skýra málin,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hófust formlega í gær í fjármálaráðuneytinu. Fundað var í allan dag en á morgun mun Benedikt hitta sitt fólk áður en viðræður halda áfram. „Ég þarf að hitta mitt fólk þannig að við séum öll samstillt fyrir átök morgundagsins.“
Hann segir enga niðurstöðu vera komna í viðræðurnar sem hægt sé að segja frá en eins og vitað var frá upphafi eru allir sammála um margt en minna sammála um annað. Ljóst er að brúa þarf talsverðan stefnumun á milli flokkanna meðal annars í Evrópumálum, landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum.
Í upphafi var gert ráð fyrir að niðurstaða yrði komin í málið um miðja viku og segir Benedikt vonast til að það gangi eftir. „Ég held að það sé öllum fyrir bestu að þetta taki sem skemmstan tíma. Það verður fundað villt og galið á morgun og við höldum áfram, það er eitthvert signal.“