Blasir við að Katrín fái umboðið

Benedikt Jóhannesson (t.h.) með Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar.
Benedikt Jóhannesson (t.h.) með Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, telur blasa við að forsetinn afhendi Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, stjórnarmyndunarumboðið á fyrirhuguðum fundi þeirra á morgun. Fulltrúar Viðreisnar séu tilbúnir til að ræða við Vinstri græn.

Í tilkynningu frá skrifstofu forseta eftir fund hans með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, síðdegis í dag kom fram að forsetinn hefði boðað Katrínu á sinn fund kl. 13 á morgun. Upp úr viðræðum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar slitnaði fyrr í dag.

„Já, mér finnst það nú blasa við. Það hlýtur að vera mat forsetans að hún eigi bestar líkur á þessu. Hann væri væntanlega ekki að boða þann sem hann teldi ólíklegan,“ segir Benedikt spurður að því hvort hann túlki fundarboðið þannig að Katrínu verði falið umboðið.

Forsetinn hafði samband við formenn allra flokka sem eiga sæti á Alþingi eftir fundinn með Bjarna. Benedikt segir að í símtali við forsetann hafi hann lýst hugsunum sínum um hvað gæti gerst á næstu dögum og vikum. Að öðru leyti segir hann að um trúnaðarsamtal hafi verið að ræða.

Ýmsir möguleikar sem voru áður útilokaðir

Katrín hefur talað fyrir fjölflokkastjórn flokka frá vinstri og yfir miðjuna. Spurður að því hvort Viðreisn væri tilbúin í samstarf á þessum forsendum segist Benedikt ekki klár á því hverjar þær forsendur séu.

„Við myndum bara sjá þær og mæta að borðinu. Mér heyrist nú að forsendurnar séu kannski að breytast frá einum degi til næsta, kannski eftir því sem möguleikunum fækkar á borðinu. Þá verða til nýir,“ segir Benedikt og vísar til þess að Katrín hafi rætt við formann Sjálfstæðisflokksins í dag.

„Það geta verið ýmsir möguleikar sem voru útilokaðir fyrir nokkru,“ segir Benedikt.

Hann segist jafnframt ekkert hafa rætt við Katrínu í dag en honum finnist mjög líklegt að þau tali saman á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert