Ræddi við forystufólk allra flokka

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Forseti Íslands, ræddi við forystufólk allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi að loknum fundi með formanni Sjálfstæðisflokksins, í dag. Í kjölfarið boðaði hann Katrínu Jakobsdóttur á sinn fund kl. 13 á morgun. Katrín segist leyfa fjölmiðlum að meta hvort það þýði að hún fái stjórnarmyndunarumboðið.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sleit viðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn í dag. Nú síðdegis fundaði hann svo með Guðna Th. Jóhannessyni forseta. Að honum loknum sagði Bjarni boltann hjá forsetanum þó að ýmislegt gæti gerst án aðkomu hans.

Í tilkynningu sem forsetinn sendi frá sér eftir fundinn kom fram að hann hefði rætt við forystufólk allra þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi en í kjölfarið hafi hann boðað Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, til fundar við sig á Bessastöðum kl. 13 á morgun.

„Ég leyfi ykkur bara að leggja mat á það. Ég bara mæti á þennan fund,“ segir Katrín í viðtali við Mbl.is um hvort hægt sé að túlka að hún ein hafi verið boðuð á fund forseta sem svo að hún fái stjórnarmyndunarumboðið.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Árni Sæberg

Hún hafi heyrt í fulltrúum annarra flokka í dag en þau samtök hafi ekki verið formlegri en verið hefur.

„Fari svo að ég fái umboðið mun ég að sjálfsögðu ræða við formenn allra flokka. Ég vænti þess að fara yfir stöðuna með öllum. Það liggur fyrir hvað við höfum metið sem fyrsta valkost en ég vænti þess að fari þetta svona fari ég yfir stöðuna með öllum,“ segir Katrín.

Bæði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, opnuðu á samstarf til vinstri í viðtölum í kvöldfréttum Stöðvar 2. Katrín segist ætla að meta möguleikana á að mynda fjölflokkastjórn frá vinstri yfir miðjuna eftir að fólk sé búið að tala almennilega saman.

Tilkynningin skrifstofu forseta í heild:

„Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson átti síðdegis fund með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem farið hefur með stjórnarmyndunarumboð. Eftir þann fund ræddi forseti við forystufólk allra þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi.

Forseti hefur í kjölfarið boðað Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, til fundar við sig á Bessastöðum kl. 13.00 á morgun, miðvikudaginn 16. nóvember 2016.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert