Vildu halda viðræðunum áfram

Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson.
Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðreisn og Björt framtíð voru reiðubúin að halda stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn áfram en þeim var hins vegar slitið í dag samkvæmt ákvörðun Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is. Spurður hvort viðræðurnar hafi strandað á sjávarútvegsmálunum segir hann:

„Það er ekki alveg víst að svo hafi verið þar sem það var ekki búið að ræða þau mál mjög mikið. Ég hugsa að það hafi helst verið það sem Bjarni nefndi. Að með svona miklar málamiðlanir og lítinn þingmeirihluta yrði erfitt að ná þessu saman,“ segir Benedikt. Varðandi landbúnaðinn segir Benedikt ekkert hafa verið endanlega komið en styttra hafi verið á milli í þeim efnum.

Spurður hvort viðræðurnar hafi þá strandað á sjávarútvegsmálunum og Evrópumálunum segir Benedikt að það hafi allavega verið þau mál sem verið hafi útistandandi þegar Bjarni hafi ákveðið að slíta viðræðunum. Spurður hvort Viðreisn og Björt framtíð hafi viljað ræða málin áfram svarar Benedikt því játandi. Flokkarnir hafi ekki verið á því að slíta viðræðunum.

Spurður um framhaldið og hvort hann teldi rétt að hann fengi stjórnarmyndunarumboðið næst segir Benedikt: „Ég hef bara sagt að mér finnst að forsetinn eigi að ráða því.“ Spurður áfram hvort hann væri til í að fá umboðið segir hann: „Ég myndi vilja ræða það við forsetann fyrst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert