Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir líklegt að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, reyni að mynda mið-vinstri stjórn fái hún umboð til stjórnarmyndunar frá forseta Íslands í dag. Hann telur að mjög erfitt yrði að halda saman fimm flokka stjórn.
Frétt mbl.is: Hvaða kosti hefur Katrín?
„Hún [Katrín] hefur talað nokkuð skýrt fyrir því að reyna að mynda mið-vinstri stjórn. Ef marka má yfirlýsingar forystumanna úr hópi þessara fjögurra flokka sem hún vill ræða við þá er ekki ólíklegt að þeir reyni að mynda stjórn, jafnvel fyrst meirihlutastjórn, kannski sérstaklega í ljósi þess sem forsetinn nefndi þegar hann veitti Bjarna [Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins] umboðið,“ segir Baldur.
Þar talaði forsetinn um að Bjarni fengi umboðið á grundvelli þess að mynduð yrði meirihlutastjórn. „Það verður athyglisvert að sjá hvort forsetinn muni nefna það aftur nú.“
Síðast var mynduð þriggja flokka ríkisstjórn á Íslandi eftir kosningarnar 1987. Tveimur árum síðar gekk Borgaraflokkurinn til liðs við stjórnina og voru flokkarnir því orðnir fjórir. Fimm flokka stjórn á sér aftur á móti ekki fordæmi hér á landi.
„Það hefur verið bent á að þriggja flokka ríkisstjórnir hafa ekki orðið langlífar. Ég held að það verði mjög erfitt að halda saman fimm flokka stjórn, sérstaklega vegna þess að það er óvissa varðandi Píratana. Þeir eru nýtt stjórnmálaafl, eru með öðruvísi ákvarðanatöku innan sinna vébanda en aðrir flokkar, eru róttækari á mörgum sviðum en hinir flokkarnir og krefjast oft á tíðum umsvifalausra aðgerða, t.d. eftir ákvörðun kjararáðs. Það getur verið erfitt að halda svona stjórn saman og sagan sýnir okkur að þær verða ekki langlífar,“ greinir Baldur frá.
Hann segir þeim mun mikilvægara ef flokkarnir ná saman að málefnasamningurinn sé skýr. Annars sé ólíklegt að stjórnin verði langlíf.
Baldur segir ummæli Óttarrs Proppé, formanns Bjartrar framtíðar, um mikilvægi þess að mynda breiða stjórn frá hægri til vinstri athyglisverð.
„Hans nýjasta útspil er að segja að honum fyndist að tveir af þremur stærstu flokkunum eigi að fara saman í ríkisstjórn og þá líklega með Bjartri framtíð,“ segir hann en þar á Óttarr við Sjálfstæðisflokkinn, Pírata og Vinstri græn.
„Samkvæmt þessu finnst honum mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn komi að stjórnarmyndun til þess að mynda starfhæfa stjórn í landinu en ég sé ekki fyrir mér hvernig Björt framtíð á að ná að gera stjórnarsáttmála með Sjálfstæðisflokknum eftir að slitnaði upp úr viðræðunum. Nema að það hafi slitnað upp úr þeim vegna kröfu Viðreisnar í sjávarútvegsmálum.“
Að sögn Baldurs hefur Björt framtíð markað sér ákveðna sérstöðu í stjórnarmyndunarviðræðunum. Í fyrsta lagi með því að rjúfa þá mið-vinstri blokk sem hafði myndast fyrir kosningar, í öðru lagi með því að mynda bandalag með Viðreisn og í þriðja lagi með þessu nýja útspili um að stóru flokkarnir eigi að vinna saman.
„Hvort þetta rekur fleyg í þetta hugsanlega mið-vinstri samstarf er erfitt að segja til um. Það að Björt framtíð sé að leggja þetta svona upp lofar ekki góðu um viðræður á milli þessara fimm flokka,“ segir Baldur.
„Mér fannst ég líka heyra á formanni Viðreisnar í gær að hann væri ekki mjög spenntur fyrir mið-vinstri stjórn. Þannig að bæði Viðreisn og Björt framtíð virðast ekki mjög spennt fyrir þessari hugsanlega stóru mið-vinstri samsteypustjórn. Það er líklega ástæðan fyrir því að flokkarnir fóru í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn til að byrja með. Þeir virðast í augnablikinu ekki fara með opnum huga inn í þessar viðræður. Ef til vill vegna þess að þeir telja að þær geti ekki skilað árangri.“
Að mati Baldurs virðast Björt framtíð og Viðreisn eiga mjög erfitt með að vinna með Pírötum og geti ekki treyst þeim. Ástæðurnar geti verið þær að Píratar séu nýr þingflokkur og óvíst hvernig hann muni reynast á þingi. Einnig geti það skipt máli hvernig Píratarnir ákveða sín mál og skýlaus krafa þeirra um róttækar stjórnarskrárbreytingar. Það geri þá að óspennandi valkosti fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð.
Formenn flokkanna, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir, hafa nefnt að staðan í stjórnarmyndunarviðræðum sé mjög flókin. Baldur er sammála því. „Sérstaklega vegna þeirra efasemda sem virðist gæta bæði hjá Viðreisn og Bjartri framtíð um mið-vinstri samstarf. Katrín er öll af vilja gerð að reyna þannig stjórnarmyndun. Samfylkingin er tilbúin til að vera inni í ríkisstjórn til að mynda meirihlutastjórn og Píratar hafa sagt að þeir séu tilbúnir að sitja við ríkisstjórnarborðið. Þessir þrír flokkar eru samstíga um að vilja reyna þetta en hinir eru klárlega með efasemdir.“
Baldur veltir því fyrir sér hvað Katrín geti gert ef hún nær ekki að mynda fimm flokka stjórn. Til dæmi gæti hún reynt að skipta Framsóknarflokknum inn fyrir einhvern hinna flokkanna. Einnig gæti hún hafið stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn.
„Það vakti athygli mína í sjónvarpsfréttunum í gær að Katrín hélt öllu opnu varðanda samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Hún útilokaði það ekki eins og hún gerði í aðdraganda kosninganna.“
Aðspurður hvort það sé ekki slæmt ef stjórnarmyndunarviðræður dragast enn frekar á langinn, segir Baldur að alltaf sé best að hafa formlega ríkisstjórn í landinu. Það sé þó ekkert hundrað í hættunni hvað þetta varðar.
„Þingið getur alveg komið saman og afgreitt fjárlög undir þessari núverandi starfsstjórn. Í þessari stöðu sem uppi er núna er ekkert óeðlilegt að það taki nokkrar vikur að mynda ríkisstjórn. Það er mikilvægt að næsta stjórn byggi á traustum grunni,“ segir hann.
Baldur nefnir einnig að mikilvægt sé að hafa í huga að myndun ríkisstjórnar sé í höndum flokksformanna og þingsins. Þannig geti meirihluti þings komið sér saman um ríkisstjórn og tilkynnt forseta að myndast hafi meirihluti á þingi fyrir ríkisstjórnarsamstarfi.
„Nákvæmlega hver fær umboðið skiptir ekki endilega öllu máli. Eigi að síður ef formaður fær umboðið hefur það sýnt sig að það gefur honum ákveðið forskot. Það að Bjarni fékk umboðið gaf honum mikið forskot og það setti hina flokkana á hliðarlínuna. Það þýðir samt ekki að aðrir geti ekki sniðgengið það og reynt að mynda ríkisstjórn,“ útskýrir hann.