„Bjartsýn en líka raunsæ“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að loknum fundarhöldunum í dag.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að loknum fundarhöldunum í dag. mbl.is/Golli

„Ég held að allir flokkarnir hafi færst nær hver öðrum eftir daginn. Það er gott að eiga svona fundi og auðvitað algjör nýlunda að hafa tekið þátt í þessu, í ljósi þess að þessar aðstæður við stjórnarmyndun hafa ekki komið upp frá því að ég settist á þing,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í samtali við mbl.is eftir fundarhöld dagsins með forystufólki þingflokkanna í Alþingishúsinu.

„Það liggur fyrir að ég hef lýst þessum vilja okkar til að horfa til myndunar fimm flokka stjórnar. Við munum næst horfa á hvernig þeir möguleikar líta út eftir daginn en það voru líka gagnlegir fundir með fulltrúum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks,“ sagði Katrín.

Aðspurð hvort góðir möguleikar séu á því að fimm flokka stjórn nái saman sagði hún að það sé margt sem sameini flokkana en einnig séu ásteytingarsteinar fyrir hendi. „Ég er bjartsýn en líka raunsæ á það að þetta er ekki sjálfgefið.“

Hvað ásteytingarsteinana varðar nefndi Katrín til dæmis ólíka sýn í skattamálum og stjórnarskrármálum. „Það eru líka málaflokkar þar sem mér finnst ég finna mikinn samhljóm, til dæmis hvað varðar uppbyggingu innviða og áherslur í umhverfismálum,“ sagði hún.

Vinstri grænir halda þingflokksfund klukkan 20 í kvöld þar sem Katrín gerir grein fyrir fundum dagsins. Eftir það mun hún nota morgundaginn til að fara betur yfir afraksturinn og vera í sambandi við hina flokkana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert