„Hreinskipt og gott samtal“

Katrín, Oddný og Logi Már við upphaf fundarins.
Katrín, Oddný og Logi Már við upphaf fundarins. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta gekk ágæt­lega. Það var hrein­skipt og gott sam­tal á milli okk­ar,“ sagði Logi Már Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, eft­ir fund sem hann og Odd­ný G. Harðardótt­ir, fyrr­ver­andi formaður flokks­ins, áttu með Katrínu Jak­obs­dótt­ur, for­manni Vinstri grænna, í Alþing­is­hús­inu.

Fund­ur­inn stóð yfir í um eina og hálfa klukku­stund. 

„Við fór­um yfir sviðið, hvort það væri sam­hljóm­ur og hvar eitt­hvað gæti borið á milli. Við kom­umst svo sem ekk­ert óvænt að því að það eru sam­starfs­mögu­leik­ar á milli þess­ara tveggja flokka. En það eru fleiri flokk­ar og þar geta komið upp flækj­ur,“ sagði Logi.

Ræddu ESB og sjáv­ar­út­veg­inn

Spurður út í Evr­ópu­mál­in sagði hann að flokk­arn­ir væru sam­mála um að það ætti að virða það sem búið er að lofa þjóðinni varðandi þjóðar­at­kvæðagreiðslu um samn­ingaviðræður við ESB.

Að sögn Loga Más ræddu þau mál­in sem þau telja mik­il­væg­ust á næsta kjör­tíma­bili, eða vel­ferðar­mál, heil­brigðismál, mennta­mál, leiðir til að auka jöfnuð á meðal al­menn­ings og leiðir til þess að fjár­magna það.

Hvað sjáv­ar­út­veg­inn varðar sagði hann flokk­ana vera sam­mála um að eðli­legt sé að þjóðin njóti meiri arðs að auðlind­um. „Það kunna svo að vera skipt­ar skoðanir um hvaða leiðir á að nota til að ná því.“

Fjöl­flokka­stjórn ekki vanda­mál

Logi Már seg­ir raun­hæft að mynda fjöl­flokka­stjórn, eins og Katrín hef­ur rætt um. „Mér finnst það ekki hljóma sem neitt vanda­mál ef menn geta komið heiðarlega fram og náð sam­an um mál. Ég hef séð risa­stóra flokka með nokkra flokka inn­byrðis í þing­flokkn­um, þannig að það geta verið flækj­ur þar líka. Ef við erum heiðarleg og umb­urðarlynd get­um við al­veg landað skemmti­leg­um mögu­leika.“

Skil­ur ekki hræðslu í garð Pírata

Rætt hef­ur verið um óvissu annarra flokka varðandi sam­starf við Pírata. Logi seg­ir að sá flokk­ur hafi ekki verið rædd­ur á fund­in­um. „Ég hef aldrei skilið þessa hræðslu til Pírata. Mér finnst þetta skemmti­leg­ur hóp­ur og hef fulla trú á að þeir munu af fullri ábyrgð ganga inn í stjórn muni þeir axla hana,“ seg­ir Ein­ar.

Odd­ný bet­ur að sér í mjög mörgu

Odd­ný G. Harðardótt­ir, fyrr­ver­andi formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, var hon­um til halds og trausts á fund­in­um. „Odd­ný er auðvitað okk­ar reyndi þingmaður og fyrr­ver­andi ráðherra og er auðvitað miklu bet­ur að sér í mjög mörgu sem þarna fór fram held­ur en ég nokk­urn tím­ann. Ég taldi það aug­ljóst að það myndi bæta heil­miklu við að hafa hana með.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert