Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur boðað fulltrúa Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Pírata á könnunarfund á morgun til að ræða grundvöll fyrir ríkisstjórnarsamstarfi. Hún segir mikilvægt að fá skýra mynd af stöðunni tiltölulega hratt.
Í samtali við Mbl.is segir Katrín að dagurinn í dag hafi farið í að heyra í fulltrúum annarra flokka og vinna úr fundum gærdagsins með forystumönnum allra flokka. Eftir að hafa farið yfir stöðuna segist hún hafa boðað til frekari funda kl. 13 á morgun.
„Ég hyggst á morgun eiga fund með fulltrúum fjögurra annarra flokka, það er að segja Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og Pírata, og ræða hvort það sé hugsanlegur málefnagrundvöllur fyrir stjórnarsamstarfi,“ segir Katrín.
Fundurinn verði nokkurs konar könnunarfundur. Í kjölfarið muni þingflokkar flokkanna væntanlega funda og fara yfir hvort þeir séu reiðubúnir að fara í formlegar viðræður. Katrín segir að forystumenn flokkanna fjögurra hafi þegar samþykkt að mæta til fundarins.
„Við ætlum að fara yfir þennan grundvöll með alla saman við borðið og í kjölfarið geta flokkarnir væntanlega farið inn í sitt bakland og tekið afstöðu til þess. Ég vænti þess að flokkarnir vilji svolítið fá tilfinningu fyrir stöðunni áður en þeir taka ákvörðun hver í sínum herbúðum,“ segir Katrín.
Formlegar viðræður myndu því ekki hefjast fyrr en eftir fundarhöld morgundagsins. Katrín segir að eftir þau geti hún haft nokkurn veginn á hreinu hvort grundvöllur sé til að ráðast í formlegar viðræður.
„Ég er bjartsýn en raunsæ. Mér finnst mikilvægt að við fáum nokkuð skýra mynd tiltölulega hratt,“ segir Katrín en Guðni Th. Jóhannesson forseti óskaði eftir því að hún gæfi honum skýrslu um gang viðræðnanna á mánudag eða þriðjudag.