Eitt stærsta utanríkismálið

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein. Myndabanki EFTA

Útganga Breta úr Evrópusambandinu er eitt mikilvægasta utanríkismálið sem Ísland stendur frammi fyrir næstu misserin enda Bretland okkar stærsta viðskiptaland, segir Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra. Hún er stödd á ráðherrafundi EFTA-ríkjanna í Genf þar sem Brexit var helsta umræðuefnið. 

Fjögur ríki eru innan EFTA: Ísland, Sviss, Noregur og Liechtenstein. Að sögn Lilju ákváðu ráðherrarnir að vinna náið saman til þess að tryggja hagsmuna ríkjanna við við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra stýrði fundinum, en Ísland leiðir starf EFTA um þessar mundir.

„Við Íslendingar munum núna hafa frumkvæði að því að boða til fundar á næstu vikum þar sem viðbrögð EFTA ríkjanna við Brexit verða undirbúin enn frekar,“ segir Lilja í samtali við mbl.is. 

Kristinn Árnason, EFTA, Monica Mæland,viðskiptaráðherra Noregs, Aurelia utanríkisráðherra Liechtenstein, Lilja …
Kristinn Árnason, EFTA, Monica Mæland,viðskiptaráðherra Noregs, Aurelia utanríkisráðherra Liechtenstein, Lilja Alfreðsdóttir,utanríkisráðherra, Johann N. Schneider-Ammann, Sviss.

Hún segir að útganga Breta sé bæði söguleg og flókin í framkvæmd og það sé skoðun ráðherranna að fylgjast þurfi vel með þróun mála sama hvernig Bretar ákveða að haga sinni útgöngu.

„Annað sem er gríðarlega mikilvægt er að EFTA-ríkin séu samstíga og láti ekki ólíka hagsmuni eða samkeppni sín á milli hafa áhrif á þetta samstarf,“ segir Lilja. 

Líkt og fram hefur komið stefna Skotar á aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði í kjölfar Brexit. Lilja segir að Skotar hafi að undanförnu verið að líta í kringum sig og meðal annars heimsótti Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar, Ísland nýverið þar sem þær áttu fund saman.

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra heimastjórnar Skotlands.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra heimastjórnar Skotlands. AFP

Að sögn Lilju lýsti Sturgeon yfir áhuga Skota á samstarfi við EFTA ríkin og á EES samningnum en engin ákvörðun hafi verið tekin þar um.  

Skosk yfirvöld hafa einnig heimsótt Lictenstein og sent fulltrúa fund EFTA í Genf og Brussel þannig að það er allt á hreyfingu varðandi tengsl Skota segir Lilja. „Því er svo mikilvægt fyrir okkur að vera vakandi fyrir því sem er að gerast. Er að mínu mati er eitt okkar stærsta utanríkismál á næstu misserum,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Bretar hafa ekki sagt nákvæmlega hvað þeir ætla sér að gera en hafa lýst yfir áhuga á fríverslun. „Það sem skiptir okkur máli er að það sé greiður aðgangur fyrir vörur okkar og þjónustu. Fyrir land eins og Ísland sem byggir allt sitt á því að utanríkisviðskipti gangi vel,“ segir Lilja.

Þrjár sviðsmyndir til skoðunar

Líkt og Lilja kynnti fljótlega eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar lá fyrir í Bretlandi er utanríkisráðuneytið að skoða þrjár sviðsmyndir. Í fyrsta lagi að kanna hvort að Bretar séu að fara gera marga djúpa tvíhliða fríverslunarsamninga. Að EFTA-ríkin geri slíkan samning sameiginlega eða Ísland ásamt öðrum EES-ríkjum komi inn í útgöngusamning Breta við ESB.

„Ástæðan fyrir því að ég vildi að vinnan færi strax af stað við að skoða allar þessar leiðir er sú óvissa sem er framundan,“ segir Lilja og bætir við að þrátt fyrir að óvissan sé mikil núna geti hlutirnir gerst hratt og þá á að vera búið að vinna þessa heimavinnu útfrá öllum þessum sviðsmyndum. „Þess vegna settum við á laggirnar sérstaka Brexit-einingu í utanríkisráðuneytinu. Ég fullyrði að það sé gott hvernig Ísland nálgast þetta og eigi frumkvæðið að vinnu sem er að eiga sér stað innan EFTA,“ segir Lilja.  

Á fundinum í morgun ræddu ráðherrarnir stöðu fríverslunarviðræðna við önnur ríki, svo sem Víetnam, Malasíu, Indónesíu og Indland en þær viðræður voru að hefjast á nýjan leik sem og við Ekvador.

Ráðherrarnir fóru einnig yfir stöðu viðræðna um endurskoðun og uppfærslu gildandi samninga við Mexíkó og komandi viðræður við Síle. Varðandi aðra slíka samninga ítrekuðu ráðherrarnir áhuga EFTA ríkjanna að hefja á ný viðræður við Tyrkland og að hefja viðræður við Tollabandalag Suður Afríkuríkja (SACU). Jafnframt var lögð áhersla á mikilvægi þess að áfram væri leitað leiða til að hefja viðræður um endurskoðun fríverslunarsamnings EFTA og Kanada. Utanríkisráðherra stýrði einnig fundi EFTA ráðherranna með Þingmannanefnd EFTA þar sem fjallað var um stöðu mála varðandi fríverslunarviðræður EFTA ásamt því að farið var yfir þróun mála í samskiptum Bretlands og ESB.

Fríverslunarnet EFTA samanstendur af 27 samningum við 38 ríki og svæði. Tólf prósent af heildarútflutningi EFTA ríkja fer til þessara ríkja á meðan 7,5% innflutnings kemur frá þeim. Fundinn sátu auk Lilju; Johann Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Monica Mæland viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert