Vinstri græn hafa lagt þunga áherslu á það að farið verði í kerfisbreytingar sem miða að því að auka jöfnuð og draga úr misskiptingu í samfélaginu. Í því felst að sótt verði fram í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum samhliða umbótum í skattamálum sem annars vegar miða að því að fjármagna þessa sókn og hins vegar að því að velta skattbyrði af lág- og millitekjuhópum yfir á hátekjuhópa.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, í dag þar sem hún segir að „einhverjir séu að missa sig“ vegna umræðna um skattamál. Í dag greindi Morgunblaðið frá því að flokkurinn vildi stórfelldar skattahækkanir og var Katrín sögð harðákveðin í því að viðhalda hátekjuskatti, koma aftur á auðlegðarskatti og áhugasöm um hækkun fjármagnstekjuskatts.
Fyrri frétt mbl.is: VG vill stórfelldar skattahækkanir
Katrín segir á Facebook að til þess að geta ráðist í nauðsynlegar aðgerðir í heilbrigðismálum, menntamálum og til þess að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja þurfi ríkissjóður auknar tekjur.
„Þessar tekjur viljum við tryggja með því að taka á skattsvikum sem varlega eru áætluð um 80 milljarðar á ári, með því að tryggja auknar tekjur af nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar og kanna möguleika á því að skattleggja fjármagnið sem þar er að finna. Þetta þýðir kerfisbreytingar í skattamálum sem færa skattbyrði af lág- og millitekjuhópum yfir á hátekjuhópa. Þannig aukum við jöfnuð og tryggjum að allir njóti þeirrar uppsveiflu sem er í efnahagslífinu,“ segir í færslu Katrínar.
Hún segir jafnframt að þessar áherslur VG ættu ekki að koma neinum á óvart.
„Við lofum nefnilega ekki auknum útgjöldum í heilbrigðisþjónustu og skólamálum (sem allir segjast vilja) nema við teljum að við getum aflað tekna á móti og að þeirra tekna sé aflað með réttlátum hætti. Að sjálfsögðu er þetta vinstrisinnuð stefna en það er nú ekki hægt að saka okkur um að hafa siglt undir fölsku flaggi í þeim efnum.“