Hefði viljað sjá tillögur frá Viðreisn

Birgitta Jónsdóttir eftir fundinn með Katrínu Jakobsdóttur. Smári McCarthy ræðir …
Birgitta Jónsdóttir eftir fundinn með Katrínu Jakobsdóttur. Smári McCarthy ræðir í bakgrunni við fjölmiðla. Birgitta segir að sér hafi komið á óvart að stjórnarmyndunarviðræðum var slitið. mbl.is/Golli

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að sér hafi komið á óvart að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ákvað að slíta stjórnarmyndunarviðræðum VG, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Samfylkingar nú í kvöld.

Flokkarnir hafi verið að nálgast hver annan málefnalega undanfarna daga. „Við áttum bara eftir að vinna ákveðna vinnu,“ segir Birgitta. „Ég hefði viljað sjá tillögur frá Viðreisn til dæmis um hvað þeim fannst ásættanlegt.“

Skynjaði einlægan vilja til að halda áfram

Búið hafi verið að vinna að tillögum og samantekt hafi komið úr málefnahópunum. „Síðan átti alveg eftir að fara í húsnæðismálin og landbúnaðarmálin. Ég skynjaði einlægan vilja til að halda áfram með þetta, þannig að það kom okkur verulega á óvart að þessi fundur sem seinkaði mjög í dag hafi ekki skilað öðrum árangri en að slíta þessu.“

VG voru að mati Birgittu tilbúin að teygja sig áfram. „En það hefði verið mjög gagnlegt að sjá einhverjar tillögur frá Viðreisn um hvaða kröfur þeir gerðu. Það komu engin slík gögn inn á fundinn.“

Staðan í ríkisfjármálum kom Pírötum ekki á óvart

Birgitta segir þær fullyrðingar að stjórnarmyndunarviðræðurnar hafi strandað á þrengri stöðu í ríkisfjármálum vera furðulegar að sínu mati. „Það vita allir sem hafa tekið þátt í þingstörfum að það er ekkert alltaf allt sett inn í ríkisreikning. Það áttu allir að vita það að það var verið að reikna inn hluta af stöðugleikasjóðnum inn í þessar tölur.“

Píratar hafi verið meðvitaðir um hve þröng staðan var og ekkert við þær upplýsingar hefði því komið sér sérstaklega á óvart.

„Allir þessir flokkar sem hafa verið að gefa kost á sér vildu verða við ákalli þjóðarinnar um endurreisn heilbrigðiskerfisins og það þýðir að peningana þarf að sækja einhvers staðar,“ segir hún.  „Og út af því að við erum að búa við fjárlög fyrrverandi ríkisstjórnar þá er líka ljóst að við getum ekki gert allt sem við hefðum viljað gera og það þarf að ná í peningana og það er ekki hægt að gera samdægurs.“ Þetta hefði átt að vera  öllum ljóst.

Útilokar ekki að flokkarnir nái saman út frá öðrum áherslum

Flokkarnir fimm hafi hins vegar undanfarna daga unnið góðan grunn og hún vilji ekki útiloka að fólk nái aftur saman út frá eilítið öðruvísi áherslum.

„Mér fannst fallegt við þessa tilraun og hefði viljað sjá hana takast, að þarna vorum við með svona litla þjóðstjórn þar sem við vorum með allt rófið,“ segir Birgitta.  „Það er enn þá sögulegt tækifæri til staðar og það er á ábyrgð okkar sem erum í stjórnmálum að finna lausn.“

Hún kveðst ekki vita hvað muni gerast næst, en segir Pírata ekki munu skorast undan veiti Guðni Th. Jóhannsson forseti þeim stjórnarmyndunarumboð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert