Líkur Framsóknarflokksins að komast í viðræður um ríkisstjórnarmyndun og þar með mögulega í ríkisstjórn hafa aukist eftir fréttir dagsins. Ef litið er til sögunnar hafa það verið flokkar á miðjunni sem ráða því hvernig stjórnir eru myndaðar og nú hafa Viðreisn og Björt framtíð bæði horft til vinstri og hægri en strandað í bæði skiptin. Eftir standi Framsóknarflokkurinn. Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur, í samtali við mbl.is.
Hún segir Katrínu nú eiga þann leik í stöðunni að tala við Framsókn meðan hún hafi stjórnarmyndunarumboðið. Segir hún áhuga vera fyrir því hjá Sjálfstæðisflokknum að fara í samstarf við Vinstri græna, en þá myndi væntanlega þurfa annaðhvort Viðreisn eða Framsóknarflokkinn. Segir hún að miðað við stöðuna sem upp er komin núna gætu flokkar þurft að opna á eitthvað sem þeir hafi áður lokað á.
Stefanía bendir á að Framsóknarflokkurinn hafi áður skilgreint sig sem miðjuflokk þó að undanfarin ár hafi verið þar nokkuð hægri sinnuð öfl. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, hafi aftur á móti lagt áherslu á það þegar hann var kosinn að flokkurinn yrði félagshyggjuflokkur undir sinni stjórn.
Það þarf þó ekki að vera einföld vinna að koma Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum saman að sögn Stefaníu, en hún bendir á að aðeins einu sinni í sögunni hafi flokkarnir á jaðrinum á hinu pólitíska litrófi hér á landi farið saman í ríkisstjórn. Það hafi verið Nýsköpunarstjórnin árið 1944-1946, en það hafi ekki komið til af góðu, heldur hafi verið stjórnarkreppa í 20 mánuði þar á undan.