Staðan tugum milljarða þrengri

Við upphaf fundarins í morgun.
Við upphaf fundarins í morgun. mbl.is/Rax

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir að það setji strik í reikninginn í stjórnarmyndunarviðræðunum að staðan í ríkisfjármálum sé tugum milljarða þrengri en talið var við upphaf viðræðnanna.

„Það voru samþykkt ýmis fjárútlát á síðustu vikum þingsins sem ekki var gert ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun. Það munar einhverjum tugum milljarða,“ sagði Benedikt fyrir fund í Alþingshúsinu sem hófst klukkan 10 og stendur yfir til hádegis. Þar funda forsvarsmenn flokkanna fimm sem eru í stjórnarmyndunarviðræðum.

Frétt mbl.is: Þurfa að taka á stóru málunum

Frétt mbl.is: Réttlæting fyrir nýja og hærri skatta?

Aðspurður sagði hann að þessi staða setti strik í reikninginn og geri hlutina flóknari. „Menn höfðu talað býsna fjálglega um hvað staða ríkissjóðs væri góð en svo kemur í ljós að hún er þrengri en menn áætluðu.“

Spurður hvort minna fjármagn fari í að efla innviði, til dæmis heilbrigðisþjónustu, vegna þessa sagði Benedikt: „Það er búið að segja að það eigi að vera ákveðinn afgangur af ríkissjóði næsta ár. Menn hafa samþykkt það og það er mjög erfitt að fara fram hjá því.“

Verður erfitt að samþykkja aukna skattheimtu?

„Við höfum ekki verið á því að það eigi að hækka skatta.“

Benedikt segir mjög erfitt að segja til um hvort líklegt sé að það verði af þessari stjórnarmyndun. „Menn hafa reynt að sýna mikla lagni við þetta fram að þessu en eins og Katrín [Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna] hefur bent á eru flokkarnir með mismunandi sjónarhorn. Það er ekki víst að það sé hægt að samræma öll sjónarmið.“

Spurður hvort líkurnar á að stjórnarmyndunin gangi upp væru meiri en minni sagðist hann ekki geta metið það. „Reyndar gengu fundirnir í gær ágætlega. Þar komu ýmsar nýjar upplýsingar fram og fólk var að reyna að nálgast hver staðan væri. Á mörgum stöðum var það skýrt og það hjálpar í framhaldinu,“ sagði hann.

„Mjakast allt í áttina“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði fyrir fundinn að dagurinn í gær hafi verið góður og að fínn gangur hafi verið í viðræðunum. „Þetta mjakast allt í áttina en það eru enn þá mál sem þarf að fara yfir og taka ákvarðanir um. Menn þurfa að finna leiðir til að ná saman en þetta mjakast allt í réttu áttina á meðan það stoppar ekki.“

Spurður út í helstu ágreiningsmál sagði hann stöðuna frekar flókna þegar fimm flokkar með mismunandi kúltúr og pólitík reyna að ná saman. „En það er ekkert leyndarmál að efnahags- og skattamálin og sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin eru kannski þau mál sem eru mest eftir,“ sagði Óttarr.

Hafa viðræðurnar gengið erfiðar en þú bjóst við?

„Að sumu leyti er þetta auðveldara en maður átti von á því maður vissi að þetta yrði flókið með svona marga flokka. En það komu allir jákvæðir inn í þessar viðræður. Menn eru kannski meira meðvitaðir um þetta og eru þar af leiðandi duglegri að láta þetta ganga.“

Hann kveðst vera bjartsýnn en líka með galopin augu fyrir því að um vinnu sé að ræða sem þarf að klára. „Það er ekkert gefið að hún gangi upp. Þetta er mjög flókið með fimm flokka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert