Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, segist hafa notað daginn í dag til að ræða við fulltrúa flestra flokka. „Það verður að segjast að valkostunum fer nú kannski ekki fjölgandi,“ segir Katrín.
Sú hugmynd hafði komið upp að hugsanlegt væri að fá Framsóknarflokkinn inn í fjölflokkasamstarf, en sú hugmyndi virðist líka vera vandkvæðum bundin. „Píratar hafa hafnað því samstarfi og Framsóknarflokkurinn hefur sömuleiðis ekki lýst áhuga á því samstarfi.“
Katrín ræddi við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, í morgun og segir hann hafa hvatt sig til að nýta daginn í dag til að fara yfir stöðu mála og heyra í fólki. Hún hafi því notað daginn til að skoða aðra möguleika á myndun fjölflokkastjórnar og fara yfir alla möguleika.
Katrín mun funda með þingflokki VG í fyrramálið um viðræður dagsins. „Ég fer yfir þessa stöðu aftur með mínum flokki í fyrramálið, en tel mig þá vera búna að fara aftur rækilega yfir sviðið og met að því loknu hvað við gerum.“ Hún kveðst einnig gera ráð fyrir að ræða við forsetann aftur á morgun.
Hún segir þingmenn VG óneitanlega hafa orðið fyrir vonbrigðum með að það slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum í gær. „En fólk tekur þessu samt með æðruleysi enda ekki annað í stöðunni.“
Spurð hvort hún sjái fyrir sér einhverjar breytingar á viðhorfi VG til skattalagabreytinga í ljósi þess að þetta var einn helsti ásteytingarsteinn í fimm flokka samstarfi við Viðreisn, segir Katrín að hún hafi litið svo á að kosningarnar nú í haust hefðu að miklu leyti snúist um vilja til að auka útgjöld til heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála.
„Fyrir þessar kosningar töluðu allir flokkar fyrir því að þeir vildu auka útgjöld verulega til heilbrigðismála, menntamála og til að bæta kjör öryrkja og aldraðra. Ég vænti þess að enginn flokkur hafi gleymt því sem hann sagði fyrir kosningar um þau mál,“ segir hún.
„Við höfum að minnsta kosti ekki gleymt því og þess vegna lögðum við nú áherslu á að það yrðu gerðar einhverjar raunhæfar áætlanir um hvernig hægt væri að standa við allavega eitthvað af þessum væntingum.“