Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fundaði með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, klukkan 9:30 í morgun samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forsetaembættisins. Ekki er gefið upp hvar fundurinn hafi farið fram.
Katrín sagði í samtali við mbl.is í morgun að hún ætlaði að ræða við forsetann fyrir hádegi og gera honum grein fyrir stöðunni í tilraunum til stjórnarmyndunar. Forsetinn veitti Katrínu umboð til stjórnarmyndunar í síðustu viku eftir að tilraun til þess að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar mistókst.
Við tók tilraun Katrínar til þess að mynda fimm flokka stjórn VG, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar. Sú tilraun rann hins vegar út í sandinn í gær. Katrín fundar með þingflokki VG fyrir hádegi en ekki liggur fyrir hver næstu skref verða. Hún getur annað hvort skilað umboðinu til forsetans eða kanna aðra kosti.