„Kostunum fer auðvitað fækkandi en ég geri nú ráð fyrir að áfram verði reynt að mynda meirihlutastjórn þó þessar tvær tilraunir hafi mistekist,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, í samtali við mbl.is inntur álits á stöðunni sem komin er upp í tilraunum stjórnmálaflokkanna til þess að mynda ríkisstjórn.
Viðræður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar um myndun ríkisstjórnar runnu út í sandinn í gærkvöldi eftir að þær höfðu staðið yfir í nokkra daga. Áður hafði viðræðum Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verið slitið. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, er enn með stjórnarmyndunarumboð frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, en hefur ekki tekið ákvörðun um framhaldið. Hún getur annað hvort skilað umboðinu eða kannað aðra stjórnarmyndunarkosti.
Grétar segir að áður en farið verði að skoða hugsanlegar minnihlutastjórnir sem fá fordæmi eru fyrir hér á landi verði væntanlega áfram reynt til þrautar að koma saman stjórn með meirihluta á Alþingi. Vangaveltur hafa verið uppi um að reynt verði að fá Framsóknarflokkinn inn í stjórn með einhverjum hætti. „Takist að ná saman málefnalega við Framsóknarflokkinn til dæmis í miðju-vinstristjórn þá værum við að sjá Framsóknarflokk með allt annað andlit en við höfum séð undanfarin ár. Þá með mun meiri áherslu á félagshyggju.“
Staðan kalli í öllu falli á það að reynt verði að skoða fleiri möguleika á stjórnarmyndun en áður. Hvort sem það verði undir verkstjórn Katrínar eða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, ef hann fengi umboð til stjórnarmyndunar aftur. „Líkurnar á að Framsóknarflokkurinn komi að minnsta kosti eitthvað nær þessu hafa allavega aukist. Ekki síst þar semþað er greinilega erfitt að ná saman við Viðreisn.“ Vísar hann þar til þess að Viðreisn hafi árangurslaust reynt stjórnarmyndun bæði til vinstri og hægri.
Grétar segir að eitt af því sem hugsanlega komi til endurskoðunar sé bandalag Viðreisnar og Bjartrar framtíðar en flokkarnir hafa staðið saman í báðum tilraunum til stjórnarmyndunar sem fram hafa farið. „Það er ekki víst að það haldi áfram enda eru flokkarnir ekki neyddir til þess að halda því út í rauðan dauðann.“ Spurður um mögulegt samstarf Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem sumir hafa nefnt til sögunnar segir Grétar að það gæti verið erfitt fyrir VG.
„Það yrði þá aldrei nema undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Það hugsa að það væri án efa talið lágmarkið. En ég er ekkert rosalega trúaður á þetta. VG myndi aldrei fara inn í slíka stjórn ef hún ætti að vera einhvers konar framlenging á fráfarandi stjórn sem þeir hafa gagnrýnt harðlega,“ segir Grétar. það þyrfti eitthvað mikið að koma til svo VG gæti réttlætt slíkt samstarf. Aðrir kostir væru ekki færir og VG fengi lykilstefnumál fram og málaflokka í ríkisstjórn sem þeir flokkurinn legði megináherslu á.
Ef ekki tekst að mynda ríkisstjórn yrði næsta skref væntanlega að boða til nýrra kosninga. Grétar segir aðspurður að möguleikinn á að forsetinn skipi utanþingsstjórn verði að teljast fjarlægur. „Ég held að það sé töluvert langt í það að utanþingsstjórn komi til greina. En það eykst þrýstingurinn á að tilraunir til stjórnarmyndunar taki styttri og styttri tíma.“ Fáir væru líklega spenntir fyrir nýjum kosningum, bæði í röðum stjórnmálamanna og kjósenda, en ef til þess kæmi gæti það komið sér best fyrir stærri flokkana.
Þannig gætu kjósendur litið til að mynda á Sjálfstæðisflokkinn sem ávísun á stöðugleika eins og virtist hafa gerst í síðustu kosningum. Fylgi flokksins gæti því aukist enn kæmi til nýrra kosninga. Framsókn gæti að sama skapi náð vopnum sínum og ekki væri ólíklegt að VG gæti einnig fengið aukið fylgi. Nýjar kosningar gætu hins vegar komið sér illa fyrir minni flokka. Margir kjósendur vildu líklega ekki að sama staða kæmi upp aftur og myndu þá hugsanlega vilja stuðla að því að hægt yrði að mynda stjórn.
„Ég hugsa að fólk sé orðið þreytt á kosningum,“ segir Grétar. Þó formleg kosningabarátta fyrir síðustu kosningar hafi verið frekar stutt miðað við flestar fyrri kosningar hafi aðdragandi þeirra staðið yfir í marga mánuði. „Minni flokkar gætu tapað á nýjum kosningum, til að mynda eins og Viðreisn og líklegt er að það sama ætti við um Pírata. En maður sér ekki alveg að menn fari að láta þetta ganga svo langt.“ Líklega væru engir af flokkunum sérstaklega vel stemmdir fyrir þeim möguleika að nýjar þingkosningar færu fram.