Kannast ekki við gagnrýni á Katrínu

Þau Eygló Harðardóttir, Logi Einarsson og Theódóra S. Þorsteinsdóttir voru …
Þau Eygló Harðardóttir, Logi Einarsson og Theódóra S. Þorsteinsdóttir voru gestir hjá Helga Seljan í þættinum Vikulokin á Rás 1.

Það kom Theódóru S. Þorsteinssdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar og Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, á óvart að það slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og  Samfylkingar sl. miðvikudag. Þetta kom fram í þættinum Vikulokin hjá Helga Seljan á Rás 1 í morgun.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir það hins vegar ekki hafa komið sér á óvart að slitnað hafi upp úr stjórnarmyndunarviðræðum í undanfarin tvö skipti og það hafi heldur ekki komið þeim sem hún hefur rætt við á óvart. „Þetta var fyrirsjáanlegt og forsetinn var búinn að benda á að það gæti orðið flókið að mynda stjórn,“ sagði hún.

„Við erum í þessu af heilum hug og það kom mér á óvart í bæði skiptin að það skyldi slitna svona fljótt upp úr, því mér fannst þetta ganga vel,“ segir Theódóra og kveðst telja að í fyrra skiptið hafi viðræðum verið slitið vegna veiks meirihluta og að í síðara skipti hafi mögulega ekki verið nægur vilji allra flokka til að halda vinnunni áfram.

Læstust í tæknilegum útfærslum á síðustu metrunum

„Mér fannst skorta vilja manna til að vinna nokkra klukkutíma í viðbót, það var ekkert farið að reyna á að ná málamiðlunum,“ sagði Logi og bætir við: „Ég held það sé gott að þetta sé svona flókið því samfélagið er flókið.“ Stjórnmál eigi að vera list þess sem áður var talið ómögulegt en hægt er að koma í framkvæmt.

„Mér finnst við læsa okkur of mikið í tæknilegum útfærslum á fyrstu metrunum,“ útskýrði hann. Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, hefði hins vegar verið meiri sæmd af því að gefa upp raunverulega ástæðu þess að Viðreisn sleit viðræðunum. Er Helgi spurði hver ástæðan hefði verið, kvaðst hann ekki vita það. „En ástæðan sem var gefin upp var ekki raunveruleg. Það var ekki farið að ræða skattamál þegar viðræðunum var slitið og við vissum öll að VG væri hlynnt hækkun skatta þegar við hófum viðræðurnar.“

Þykir alltaf vænt um Framsókn

Hvorki Logi né Theódóra könnuðust við gagnrýni á Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, sem fjallað er um í Morgunblaðinu í morgun. „Þessi fréttaskýring er óralangt frá minni upplifun. Þetta er tilraun að ég held til að hafa áhrif á leikinn,“ sagði Logi og Theódóra samsinnti því að hún hefði ekki heyrt af þessari hörðu gagnrýni á Katrínu.

Logi kvaðst þó ekki hafa miklar áhyggjur af að ekki takist að mynda stjórn. „En það gæti tekið tíma. Málefni flokkanna gera þetta erfiðara og nú er það þriðja breytan að það blasir við stjórnarkreppa og þá þurfa allir flokkar að slaka á sínum kröfum. Það er bara spennandi.“

Spurð hvernig stjórn þeim hugnist, kvaðst Logi gjarnan vilja fá einn dag í viðbót fyrir flokkana fimm sem slitu viðræðum sínum á miðvikudag til að ræða málin. „Annars þykir mér alltaf vænt um Framsókn og tengsl flokksins við velferðarmálin þótt við séum ekki sammála um stóru málin.“

Eygló sagði að sjálf ætti hún auðvelt með að ná saman með Bjartri framtíð og Samfylkingu í velferðarmálum. „En við byrjum ekki á að útiloka neinn,“ sagði hún. „Ég hef starfa með stjórnmálaflokki sem hefur ekkert alltaf verið á minni línu og tel með hafa náð ágætum árangri þrátt fyrir það.“ Hún hafi sömuleiðis átt í góðu samstarfi við fólk í Viðreisn þó hún sé ekki endilega alltaf sammála þeim.  „Tilfinning mín er sú að í öllum flokkum er fólk sem ég gæti unnið með og við erum of fljót að útiloka.“

Aðrir flokkar verða að svara fyrir Sigmund

Theódóra tók í sama streng. „Hugmyndafræðilega þá stend ég kannski lengst frá VG, en vil ekki útiloka það. Mig langar að ná breiðri sátt og þá þurfa allri að gefa eftir,“ sagði hún og bætti við að sér þætti t.d. ekkert ólíklegt að ná Sjálfstæðisflokki, VG og miðjuflokkunum saman.

Helgi ýtti fast á Eygló að svara varðandi stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, innan flokksins og hvort það þrengi ekki stöðuna að aðrir flokkar séu ófúsir að vinna með honum eða að sjá hann setjast í ríkisstjórn. „Það verða aðrir flokkar að svara þessu,“ sagði Eygló.

Og Theódóra bætti við að ekki væri hægt að horfa fram hjá umræðunni út á við – að kosið hefði verið í nú í haust vegna aðkomu Sigmundar að Panamaskjölunum. „En það eru allir flokkar með sitt og við verðum að ýta því frá okkur og máta okkur við málefnin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka