Enginn fundur hefur enn verið boðaður hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eftir óformlegar viðræður formanna Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í gær. Þetta staðfestir Guðlaugur Þór Þórðarson, oddviti flokksins í Reykjavík norður.
Ég á ekki von á að við fundum neitt fyrr en á morgun,“ sagði Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is. Þetta er eins og komið hefur fram í fjölmiðlum og ég vona bara að menn hafi vit á því að grandskoða þetta áður en þeir fara í einhverjar fleiri æfingar.“
Mbl.is greindi frá því fyrr í dag að formenn flokkanna þriggja hefðu legið undir feldi í dag eftir viðræður gærdagsins. Þingmenn Viðreisnar voru síðan boðaðir á fund nú síðdegis, en það átti að gera þegar eitthvað lægi fyrir eftir samræður formanna flokkanna.