Formenn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar ræddust við óformlega um stjórnarmyndun í gær og lágu undir feldi í dag. Búið er að boða þingmenn Viðreisnar á fund, en það átti að gera þegar eitthvað lægi fyrir eftir samræður formanna flokkanna. Þetta segir Hanna Katrín Friðriksson, fyrsti þingmaður Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, í samtali við mbl.is.
Frétt mbl.is: Auknar líkur á þriggja flokka stjórn
Hún segir alla sjá þörfina og finna til ábyrgðar að mynda starfshæfa ríkisstjórn og nú þegar formenn flokkanna fara í aðra umferð viðræðna geri hún frekar ráð fyrir því að menn geti komist að niðurstöðu eftir að hafa fundið grundvöll fyrir málefnastarfi í fyrri viðræðum.
Hanna Katrín segist vonast til þess að myndin hafi eitthvað skýrst um helgina og að allir hafi getað lagt eitthvað til í viðræðunum. Í fyrstu umferð þegar flokkarnir ræddu saman stóðu sérstaklega málefni tengd Evrópusambandinu og fiskistjórnunarkerfinu út af borðinu. „Núna er tíminn til að vera lausnamiðaður,“ segir hún.
Hanna Katrín segir að staðan í dag sé afleiðing af niðurstöðu kosninga og það hafi haft talsverðar breytingar í för með sér varðandi stjórnarmyndunarviðræður. „Það eru allir að læra og miklar breytingar. Þetta eru óvenjulegir tímar,“ segir hún.
Spurð hvort eitthvað hafi verið rætt innan þingflokksins um mögulegt samstarf við Framsóknarflokkinn, sem hingað til hefur verið utan við formlegar stjórnarmyndunarviðræður, segir Hanna Katrín að ekkert slíkt hafi verið rætt meðal þingmanna Viðreisnar.
Uppfært kl 18:04: Ljósmyndra mbl.is og öðrum fjölmiðlamönnum var neitað um aðgang að Alþingishúsinu af þingverði meðan fundurinn fór fram, en hann gaf upp þá skýringu að það væri að beiðni Viðreisnar. Vildi þingvörður að öðru leyti ekki tjá sig um málið, en sjaldgæft er að blaðamönnum sé meinaður aðgangur að þinghúsinu.