„Við vorum nú bara að taka stöðuna, eins og við höfum gert reglulega undanfarna daga,“ sagði Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar. Þingflokkur Viðreisnar fundaði í Alþingishúsinu nú síðdegis, þegar þingmenn flokksins voru boðaðir til fundar með skömmum fyrirvara.
Formenn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar ræddust við óformlega um stjórnarmyndun í gær og lágu undir feldi í dag.
„Það vita allir að það er ýmislegt í gangi. Bæði formenn og aðrir eru að hittast og svo tökum við stöðuna og sjáum hvernig hún er,“ segir Pawel og kveðst ekki vita til þess að boðað hafi verið til fleiri funda um málið.
Pawel segir að líkt og aðrir hafi hann rætt stöðuna við aðra þingmenn. „Maður mætir í þetta fallega þinghús sem er nýi vinnustaðurinn manns og ræðir þar við fólk bæði formlega og óformlega. Staðan er hins vegar enn þá eins og fram hefur komið í fréttum – fólk er að ræðast við og skoða ýmsa möguleika.“
Fram kom að eftir að stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var slitið fyrir tæpum hálfum mánuði hefði m.a. strandað á stefnu flokkanna í sjávarútvegsmálum og ESB.
Í fréttum RÚV og Stöðvar 2 í kvöld var sagt að formenn flokkanna þriggja hefðu m.a. rætt málamiðlunartillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, í þessum efnum. Pawel neitaði að tjá sig um hvort þetta hefði verið rætt. „Ég verð bara að vera þögull um það sem fer fram á þingflokksfundum að svo stöddu. Staðan er bara viðkvæm.“
Spurður hvernig honum litist á þriggja flokka stjórn Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar, svaraði hann: „Ég get alveg sagt að þegar að það lá fyrir á kosninganótt að þessi möguleiki væri til staðar, þá fannst mér hann alltaf frekar aðlaðandi hugmyndafræðilega, en auðvitað kemur enn þá allt til greina í þessum efnum.“